Þegar ég byrjaði að læra lögfræði fékk ég mikinn áhuga á þeim réttindum sem fólk nýtur gagnvart yfirvöldum og takmarkanir á valdsviði yfirvalda gagnvart almennum borgurum. Þá lærði ég strax í upphafi að það væru skýrar grunnreglur sem giltu í samfélaginu. Stjórnarskráin kom þar fyrst upp og einnig Mannréttindasáttmáli Evrópu ( MSE ) sem var lögfestur árið 1994, en hafði að mati stjórnskipunarfræðinga „stjórnarskrárígildi“ strax frá upphafi vegna efnis síns og þeirrar staðreyndar að Hæstiréttur Íslands leitaðist við að skýra Stjórnarskrá Íslands með hliðsjón af ákvæðum MSE og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu ( MDE ). Þetta þýddi að íslenska ríkið virti dóma MDE og ákvæði MSE og fylgdi þeim.
Á þessar reglur hefur reynt á undanförnum árum í tengslum við svokölluð „hrunmál“ og önnur mál vitaskuld samhliða. Því miður hefur ekki tekist alveg nógu vel til að fylgja þessum reglum eftir. Grunnreglum samfélagsins hefur ekki verið fylgt. Vegna þessa hefur íslenska ríkið endurtekið fengið á sig áfellisdóma undanfarin ár fyrir það að fylgja ekki reglum MSE . Því miður gerist það orðið mjög reglulega að íslenska ríkið fái á sig áfelli í málaferlum fyrir MDE .
Ég hef í nokkur ár rekið dómsmál fyrir umbjóðanda minn, sem við skulum kalla R , fyrir íslenskum dómstólum og einnig fyrir MDE . Málið snýst um að R átti í viðskiptum sem hann tapaði fjármunum á þegar upp var staðið. R hagnaðist á nokkrum viðskiptum en tapaði á öðrum, eins og gengur. En þar sem R mátti ekki jafna út gróða og tapi innan skattársins þá varð hann að telja fram gróðann og greiða fjármagnstekjuskatt en mátti ekki telja fram tapið á móti, sem hefði núllað út tapið og gott betur. Gott og vel, þannig var staðan og alveg lögum samkvæmt.
Eftir endurákvörðun skattyfirvalda greiddi R skattinn af gróðanum auk álags fyrir að greiða ekki á réttum tíma. Var það gert þrátt fyrir að R tapaði á viðskiptunum í heild.
R greiddi semsagt skattinn og sektina og taldi að málinu væri þar með lokið. En svo var ekki. Nokkru síðar var málið sent til Skattrannsóknarstjóra ríkisins til frekari málsmeðferðar. Eftir aðra málsmeðferð var R ákærður fyrir stórkostleg skattaundanskot og á endanum dæmdur í skilorðsbundið fangelsi auk þess að greiða stóra sekt. Var það ofan á fyrra álag sem hann hafði fyrir löngu síðan greitt. R var með öðrum orðum refsað tvisvar fyrir sömu sakir. Dæmdur og refsað tvisvar fyrir sama tapið.
Hæstiréttur hlustaði ekki á þau rök sem haldið var fram í málinu að R hefði áður greitt álag vegna sama tilviks og endurtekin meðferð og refsing væri í andstöðu við MSE heldur dæmdi hann í sekt og skilorðsbundið fangelsi. R sætti sig ekki við þær málalyktir og kvartaði til MDE fyrir brot á ne bis in idem reglunni, sem þýðir að ekki sé heimilt að refsa sama manni tvisvar fyrir sama brot. Er þessi regla hluti af MSE . MDE komst að þeirri niðurstöðu að ofangreind meðferð væri brot gegn ne bis in idem reglunni. Með það í farteskinu fór R fram á endurupptöku málsins fyrir endurupptökunefnd. Um hæl barst umsögn ríkissaksóknara sem mælti með því að hin sjálfstæða nefnd samþykkti upptöku málsins. Allt virtist á réttri leið þar til Hæstiréttur komst nýverið að þeirri niðurstöðu, í máli ákæruvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni, sem er efnislega eins og mál R , að ekki væru skilyrði til endurupptöku. Með öðrum orðum veldur galli á lögum því að upptöku máls er hafnað.
Þegar þetta er ritað bíður R eftir niðurstöðu endurupptökunefndar. En vonin er lítil eftir niðurstöðu í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva og enn minni er vonin að Hæstiréttur endurskoði dóm í hans máli eða vísi ákærunum frá dómi eins og rétt væri að gera. Nei, dómurinn skal standa.
En það er ljós við enda ganganna. Dómsmálaráðherra lagði haustið 2018 fram frumvarp til nýrra lagabreytinga sem myndu heimila endurupptöku dómsmáls að gengnum dómi MDE . Samkvæmt birtu frumvarpi teljast erlendar dómsúrlausnir, líkt og frá MDE , vera „ný gögn“ í skilningi laganna og á þeim forsendum er hægt að taka upp eldri dómsúrlausnir sem eru ónýtar vegna dóma MDE . Vonandi fær frumvarpið framgang svo ekki þurfi að koma til önnur hrina áfellisdóma gegn íslenska ríkinu fyrir það að brjóta endurtekið gegn ákvæðum MSE .
Ég leyfi mér að halda í vonina að réttarríkið sé á lífi og Alþingi beri gæfu til þess að afgreiða frumvarpið hratt og vel. Þetta snýst ekki bara um mannréttindi R. Heiður landsins er í húfi sem og réttlætiskennd okkar sem hér búum.
Höfundur er lögmaður og einn eigenda LOGOS.