Það er algengt vestanhafs að fyrirtæki skjóti á önnur fyrirtæki sem þau keppa við um hylli neytenda í auglýsingaherferðum.
Hrafnarnir sjá að eitthvað er farið að bera á svipuðum töktum á íslenskum auglýsingamarkaði. Þannig keyrði Einar Örn Ólafsson og hans fólk í Play á auglýsingum á flettiskiltum fyrr í vetur sem sýndi stél flugfélagsins við hliðina á öðru sem líktist vél Icelandair. Þessu fylgdi orðsending um að fólk ætti ekki að eyða öllum peningunum í flugið þegar kemur að sumarleyfinu heldur í eitthvað annað og skemmtilegt.
Nú er Síminn með auglýsingaherferð þar sem Mollý, karakter úr þáttunum um Iceguys sem leikin er af Söndru Barilli, er í aðalhlutverki. Í auglýsingunni er Mollý starfsmaður Símans sem gerir allt og græjar og hvetur samstarfsmenn sína til dáða en minnir þá á „að halda fókus“ enda sé Síminn „ekki skemmtistaður og það sé fullt af fólki að stóla á okkur“.
Hrafnarnir bíða spenntir eftir því hvernig Margrét Tryggvadóttir forstjóri Nova, sem er stærsti skemmtistaður í heimi að sögn starfsmanna, bregðist við.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. mars 2025.