„Það er nóg til!“ sagði Halla Gunnarsdóttir, stjórnarmaður í VR, og þuldi síðan upp alla þá skatta sem hana langar til að leggja á eða hækka í Silfrinu fyrir nokkrum vikum.

***
Þetta kann að vera rétt. Allavega virðist vera nóg til handa Höllu Gunnarsdóttir. Þannig hefur Samband íslenskra sveitarfélaga lagt til að henni verði greitt fyrir að útbúa ferla fyrir teymi sem á að taka við beiðnum um aðstoð frá kjörnum fulltrúum vegna eineltis, ofbeldis, kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni, meta þær og koma í viðeigandi farveg. Í heildina voru allt að 14 milljónir eyrnamerktar þessu verkefni og á Halla að fá hluta af þeirri fjárhæð verði samið við hana.

Týr stóð í þeirri meiningu að ofbeldi og kynferðisleg áreitni varði við lög og skilur því ekki af hverju það þurfi eitthvert sérstakt teymi á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að bregðast við slíku.

Auðvitað er engin þörf á því. Þarna er Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, einungis að búa til þægilega og vel greidda innivinnu fyrir Höllu. Rétt er að taka fram að Halla er starfsmaður á upplýsingasviði Landspítalans og eftir því sem Týr kemst næst er um fullt starf að ræða.

***

Einhvern tímann hefði þetta verið kallað spilling. En sennilega er það ekki gert þegar vinstri menn eiga í hlut. Eins og fram hefur komið í fréttum var ályktun um stofnun þessa teymis Höllu keyrð í gegn af nokkru kappi á stjórnarfundi Sambandsins.

Hún var samþykkt með níu atkvæðum en Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Einar Brandsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna uppi á Skipaskaga, sátu þó hjá við afgreiðslu málsins. Það gerðu Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, og Freyr Antonsson, forseti sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar ekki. Ágætt væri að þau gerðu kjósendum sínum frekari grein fyrir afstöðu sinni.

***

Í frétt Vísis er haft eftir Rósu:

„Þarna er illa farið með fé skattgreiðenda. Það hversu ákveðið þetta fór í gegn ber í mínum huga dám af pólitískri fyrirgreiðslu. Það er galið að fara svona með fjármuni. Og tíminn sem ætlaður er í þetta, hann bara stenst ekki.“

Hægt er að taka undir hvert orð.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 3. apríl Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 3. apríl 2024.

Leiðrétt. Í upphaflegu útgáfu pistilsins var sagt að Halla fengi 14 milljónir greiddar. Hið rétta er að hún fær hluta þeirrar fjárhæðar verði samið við hana.