Greint var frá því um liðna helgi að síra Gunnar Björnsson á Selfossi hefði verið sakaðir um kynferðislega áreitni. Öll mál af því taginu eru sérdeilis viðkvæm, enn frekar svo þegar um sálusorgara (eða ámóta trúnaðaryfirvald) er að ræða og sér í lagi þegar börn eða ungmenni eiga í hlut.
Það var Stöð 2, sem fyrst sagði fréttina og kom nafn síra Gunnars þar þegar fram í fréttatíma á laugardagskvöld. Það er vandséð hvernig hjá því var komist fyrst fréttin var sögð á annað borð og óhugsandi að efni fréttarinnar hefði ekki kvisast út. Hverju hefði nokkur verið bættari ef fjallað hefði verið um ónafngreindan sóknarprest á Suðurlandi? Ekki aðrir sunnlenskir prestar, svo mikið er víst.
Það kann að virðast ósanngjarnt gagnvart síra Gunnari, en hér er eigi að síður á ferðinni dæmi um það að nafnbirting hafi verið óhjákvæmileg, þó rannsókn málsins sé á frumstigi og kæruefnið ekki opinbert. Það má hins vegar vel velta því fyrir sér hver munurinn var á þessari frétt og frétt DV í ársbyrjun 2006, þar sem greint var frá grafalvarlegum ávirðingum á hendur þekktum manni, sem auðkenndur var með fötlun sinni og stöðu. Í kjölfar fréttarinnar fyrirfór maðurinn sér.
Munurinn var sjálfsagt helstur sá að annars vegar helgaðist frétt Stöðvar 2 ekki af skepnuskap líkt og frásögn DV á sínum tíma og hins vegar því að síra Gunnar hefur ekki bugast í mótlætinu. Fréttastofa Stöðvar 2 gat aðeins einhverju valdið um hið fyrra, sem vekur óþægilegar spurningar. Sérstaklega af því að þeim verður ekki svarað.
Þó að Lillý Valgerður Pétursdóttir hafi sagt fréttina á Stöð 2 af meiri stillingu en DV bar gæfu til um árið er ekki þar með sagt að nauðsynlegrar nærgætni hafi verið gætt. Þetta var fyrsta frétt og þar var aðeins sagt að hann hefði verið kærður fyrir kynferðisbrot. Eins að meint brot næðu „yfir nokkuð langt tímabil“.
Fyrst fréttin var sögð þurfti að sýna meiri nákvæmni. Máli skipti hvers eðlis meint brot eru, ræðir um blygðunarbrot eða nauðgun? Aldur kærenda kom ekki fram eða við hvað væri átt með „nokkuð löngu tímabili“. Það skiptir máli í fréttinni, hvað sem verður í meðförum réttvísinnar. Ræddi um tíu ár eða tvo mánuði? Í þeim efnum hefur ýmislegt skýrst síðan, en fyrir áhorfendur var vart unnt að draga aðra ályktun en að síra Gunnar væri sakaður um ein alvarlegustu brot sem hugsast getur.
***
Aðrir fjölmiðlar fylgdu málinu vitaskuld eftir og auðsýndu nokkra ágengni í málinu. Fréttablaðið gerði það t.d. að fyrirsagnarpunkti sínum að síra Gunnar vildi ekki tjá sig, rétt eins og að í því fælist vísbending um sekt eða sakleysi. Hann ræddi hins vegar stuttlega við DV, hugsanlega vegna þessa þrýstings, en þar kom meðal annars fram skýring síra Gunnars á athæfi því, sem kært hefði verið vegna. Kvað þar ræða um faðmlög og kossa.
Spyrja má hvort fjölmiðlar eigi að reyna að upplýsa um atvikalýsingu í máli sem þessum, en hún getur fengið annarlegt yfirbragð. Látum það vera að sinni, en í kjölfarið sigldi einkenniegur kafli málsins. Í málum af þessu tagi er kærendum skipaður réttargæslumaður, sem skal sjá til þess að hvergi sé á þá hallað og eins getur hann lagt fram bótakröfur fyrir þeirra hönd. Að öðru leyti annast ákæruvaldið málarekstur og meintir brotaþolar eru ekki aðilar máls.
Þá ber svo við að réttagæslumaðurinn annars kærandans, Þorbjörg Inga Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, tekur til máls í samtali við fjölmiðla og ber að „himinn og haf“ sé milli kæruefnanna og lýsingar síra Gunnars á þeim. „Foreldrar míns umbjóðanda eru mjög ósáttir við orð hans í Dagblaðinu,“ sagði hún í samtali Morgunblaðsins.
Með þessu er réttargæslumaðurinn að fara langt út fyrir hlutverk sitt og skyldur. Fram kemur í máli hans að þar hafi foreldrar meints brotaþola, en ekki brotaþolans sjálfs haft áhrif á, en hitt skiptir ekki minna máli að þarna er réttargæslumaðurinn kominn í almannatengslahlutverk meðan rannsókn stendur enn yfir og er í raun að gera tilraun til þess að reka málið utan réttarkerfisins.
Og fjölmiðlar spila með. Þar eru menn komnir á villigötur, sem ekki eru til þess fallnar að réttvísin eða réttlætið nái fram að ganga.
***
Það bætti ekki úr skák að á meðan öllu þessu gekk bárust sífelldar fréttir af austurríska skrýmslinu Josef Fritzl og síðan kom á daginn annað mál, ljóslega mun alvarlegra, um að íslenskur háskólakennari á tilteknum aldri væri í gæsluvarðhaldi vegna svívirðilegra brota gagnvart börnum sínum of fleirum um langa hríð. Nafn hans var ekki birt, enda augljósir hagsmunir barnanna, að það væri ekki gert.
Morgunblaðið greindi hins vegar frá því við hvaða háskóla maðurinn hefði starfað og DV birti af honum brenglaða mynd. Hægðarleikur var að komast að því hver maðurinn væri að þeim upplýsingum fengnum, enda sama óbrenglaða mynd enn á vef háskólans. Í hvers þágu var það?
***
Fréttir af málum af þessu tagi eru hinar vandasömustu, sem unnt er að fást við. Þar togast á alls kyns hagsmunir, sem eru lítt samrýmanlegir og óhjákvæmilegt er að einhverjir liggi sárir eftir. Fjölmiðlar geta kappkostað að setja sér vinnureglur til þess að unnt sé að segja slíkar fréttir, sem vissulega eiga einatt brýnt erindi við almenning, af nauðsynlegri nærgætni og sanngirni.
Slíkar reglur ná hins vegar skammt í raunveruleikanum og reynslan er sú að meta verður hvert mál fyrir sig, hvað sem öllum reglum líður. Það sætir hins vegar nokkurri furðu að eftir þá hneykslan, sem framganga DV vakti um árið, hafi menn, einkum fjölmiðlamenn, látið hjá líða að draga lærdóm af því. Vonandi láta menn verða af því þegar þessar öldur lægir.
***
Maðurinn er alltaf einn, eins og Thor sagði og 24 stundir endurspegluðu það dyggilega í vikunni. Á þriðjudag, en þá áttu Blaðið/24 stundir þriggja ára afmæli, birtist þar forsíðufregn með æpandi fyrirsögn: „Ólafur einsamall“.
Í fréttinni var lagt út af ummælum Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra á fundum í vikunni áður, þar sem hann dró í efa að vinningstillaga um skipulag Vatnsmýrarinnar væri í alla staði frábær. Ólafur er sem kunnugt er andvígur því að hróflað verði við Reykjavíkurflugvelli þar, en í tillögunni er gert ráð fyrir að hann víki Forsíðufregn 24 stunda vísaði svo á frétt á síðu 4, þar sem enn sterkar var kveðið að orði í fyrirsögn: „Ólafur einangraður“.
Þessar fullyrðingar voru byggðar á því að aðrir borgarfulltrúar hafa lýst ánægju sinni vinningstillöguna. Í fréttunum tveimur kom ekkert nýtt fram í málinu og raunar ekkert, sem benti til þess að borgarstjóri væri einangraður þó hann væri á öðru máli en félagar sínir í meirihluta og minnihluta að þessu leyti.
Hins vegar fengu þau Dagur B. Eggertsson og Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúar í minnihluta, að bregða sér í gervi stjórnmálaskýrenda og eftir þeim var haft að „alvarlegur brestur“ væri kominn upp í meirihlutanum, að Ólafur hafi talað „gegn samstarfsfólki sínu í borgarstjórn“ og svo framvegis. Af orðum samstarfsfólksins varð þó ekki annað ráðið en það væri sallarólegt.
Það var engin innistæða fyrir þessum uppslætti 24 stunda. Hin eiginlega frétt var orðin margra daga gömul og að fullu afgreidd í öðrum miðlum, í fréttum 24 stunda var ekkert nýtt að finna, efnið stóð ekki undir fyrirsögnunum og eini vinkillinn í raun spuni minnihlutans. Það voru þeir Hlynur Orri Stefánsson og Elías Jón Guðjónsson, sem skráðu „fréttirnar“ í sameiningu. Skiptir máli að sá fyrrnefndi hefur tekið þátt í starfi Samfylkingarinnar og sá síðarnefndi meðal vinstrigrænna?
***
Í því fjölþætta svikalogni, sem nú er í efnahagslífi landsins, er ekki óeðlilegt að fjölmiðlar fjalli meira um hagræn málefni en endranær, en það er ekki sama hvernig það er gert. Eða hvar. Tímaritið Mannlíf ver þannig 22 síðum í síðasta tölublaði til þess að fjalla um gengis- og peningamálastefnuna og lagði forsíðuna undir haganlega gerða mynd af sökkvandi krónu í grænum sjó, en upp að henni syndir hákarl. Fyrirmyndin er plakat náttúrulífstryllisins Jaws eða Ókindarinnar, eins og hún nefndist á Íslensku.
Nú má draga í efa að víðtæk umfjöllun um peningamál selji tímarit á borð við Mannlíf (Peningamál Seðlabankans, góð sem þau eru, eru ekki metsölublað). Úttektina skrifar sjálfur ritstjóri Mannlífs, Sigurjón M. Egilsson, en hann hefur til þessa ekki fjallað mikið um hagfræðileg málefni.
Efnistökin bera þess enda nokkur merki, nokkuð um alhæfingar og hæpnar fullyrðingar viðmælendanna settar fram sem viðteknar staðreyndir. „Stjórn Bush Bandaríkjaforseta, sem hratt kreppunni af stað...“ er haft eftir Jóni Baldvini Hannibalssyni í endurunnu viðtali úr næsta tölublaði á undan. Já, helvítið hann Darth Vader varaforseti hefur örugglega kokkað kreppuna til þess að græða á henni!
Ekki verður heldur sagt að valið á viðmælendum beri vitni um að leitað hafi verið allra sjónarmiða. Þrátt fyrir að Seðlabankinn sé helsti skotspónn Mannlífs og viðmælenda þess, er ekki rætt við neinn á þeim bæ. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, víkur þó að vanda Seðlabankans, sem sé uppálagt að fylgja tiltekinni peningamálastefnu lögum samkvæmt, en ekkert er frekar vikið að pólitískri ábyrgð eða hinu að Alþingi sé í lófa lagið að breyta peningamálastefnunni.
Hins vegar vekur athygli að þegar í fyrstu orðum Björgvins kemur fram misskilningur viðskiptaráðherra á peningamálastefnunni, því hann heldur að Seðlabankanum sé ætlað „annars vegar að nota stýrivaxtatækið til þess að draga úr þenslu og hins vegar til þess að stilla af gengið.“
En það er ekki markmið Seðlabankans að halda genginu stöðugu, þó ekki þyki mönnum það verra, heldur er áherslan á verðbólgumarkmiðin. Þetta segir sína sögu og eins að Sigurjón hnjóti ekki um það. En það er þó ekki síður með ólíkindum að hvergi sé vikið að þenslu ríkisins á umliðnum árum og því hvort stýrivaxtahækkanir hafi ekki verið óumflýjanlegar afleiðingar, fremur en rót vandans. Umfjöllunin var þó ekki alónýt.
Upphafið á viðtali við Þorvald Gylfason, hagfræðiprófessor, er til dæmis óborganlegt: „Ég sá þetta fyrir.“ Þar er fundinn titillinn á óskrifaða sjálfsævisögu hans.
***
Stöð 2 hefur að undanförnu haft uppi pólitíska stríðni, sem felst í því að minna reglulega á heitstrengingar formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins skömmu fyrir kosningar í fyrra, um að eitt af fyrstu verkum flokksins í ríkisstjórn yrði að gera breytingar á eftirlaunalögum æðstu ráðamanna, sem mörgum er þyrnir í augum. Er enda aðeins mánuður síðan formaðurinn fékk uppklapp á flokksstjórnarfundi fyrir að ætla ganga í málið í einum grænum.
Nú má vel finna að því hvernig Samfylkingin hefur sinnt þessu hugðarefni og raunar er aðkoma flokksins og formannsins núverandi að gerð og afgreiðslu frumvarpsins á sínum tíma verðugt rannsóknarefni sérfræðinga í samtímasögu. En það er ekki sama hvar og hvernig það er gert. Slík herferð þætti fráleit á fréttasíðum blaða en vel viðeigandi í leiðurum eða skoðanadálkum.
Enn frekar vekur það svo vitaskuld athygli að þetta eina mál skuli tekið fyrir og gerð skil með þessum hætti. Ætli það megi ekki finna fleiri dæmi — hjá öllum flokkum — um að minna hafi orðið úr herópum kosningabaráttunnar en efni stóðu til?
Hitt er svo annað mál að það er ávallt afnaumkunarvert þegar stjórnmálamenn barma sér undan fjölmiðlum og það á líka við í þessu tilviki. En það var nánast súrrealískt að fylgjast með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur bera harm sinn upp við Heimi Má Pétursson í viðtali í kvöldfréttum Stöð 2 á miðvikudagskvöld, þar sem hún sagði vinnubrögðin bera keim af einhverju allt öðru en fréttamennsku: „... þið hafið verið með þessa herferð ykkar í gangi rétt eins og þið séuð að reka stjórnmálaflokk en ekki fréttastöð.“
Heimir Már er ekki ókunnugur rekstri stjórnmálaflokka, enda um hríð framkvæmdastjóri Alþýðubandlagsins, eins forvera Samfylkingarinnar. Hann var á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar 2003 og bauð sig fram til varaformanns á landsfundi flokksins árið 2005.
Sama ár tók hann frægt hádegisviðtal á Nýju fréttastöðinni (NFS), eins og fréttastofa Stöðvar 2 kallaðist þá, við þessa sömu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hafði einmitt verið kjörinn formaður Samfylkingarinnar á þessum sama landsfundi.
Frægt, vegna þess að Ólafur Teitur Guðnason, frumkvöðull fjölmiðlagagnrýni Viðskiptablaðsins, benti á ótrúleg mismæli Heimis Más á þessum stað. Undir lok viðtalsins spurði hann nefnilega formann sinn hvaða fylgi væri ásættanlegt fyrir flokk þeirra í komandi sveitarstjórnarkosningunum og vitnaði til síðustu fylgismælingarinnar: „Hvað getur þú sætt þig við? Við erum í tutt…, þið eruð í... þið eruð í tuttugu og sex prósentum í nýjustu könnuninni.“ „Við erum í tuttugu og sex prósentum,“ vildi hann sagt hafa, hlutlaus fréttamaðurinn.
***
Hlutleysi fjölmiðla getur verið með ýmsum hætti. 1. maí var efsta frétt á síðu 9 í Morgunblaðinu byggð á fréttatilkynningu um verðskrárbreytingu hjá símfyrirtækinu Novu, sem rekur stærsta skemmtistað í heimi og er alls góðs maklegt. Merki símfyrirtækisins var látið duga sem myndskreyting , en fyrirsögnin var „Nova lækkar meðan aðrir hækka“.
Niðurlag „fréttarinnar“ var að nánari upplýsingar mætti finna á www.nova.is. Nú skal ekki að óreyndu dregið í efa að allt var þetta satt og rétt (og rétt að taka fram að aðaleigendur Viðskiptablaðsins og Símans eru hinir sömu).
En er ekki fullmikill sölukeimur af fyrirsögninni? Ekki síst þegar haft er í huga að aðaleigendur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og Novu eru hinir sömu.
Eða að í varastjórn Árvakurs situr Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Novu. Hér skal ekkert fjallað um samhengið þar á milli, en þetta er óheppilegt.