Ótti og andúð á útlendingum og hinu óþekkta er nokkuð sem flestir geta verið sammála um að sé óæskilegt, enda er stutt frá ótta og andúð í eitthvað ennþá andstyggilegra.

Enginn siðaður maður viðurkennir lengur — og sem betur fer — að hann hati fólk af öðru bergi brotið en hann sjálfur. Andúð á hinu óþekkta, sem stundum er kölluð xenophobia, á sér hins vegar spegilmynd í hugtaki sem breski heimspekingurinn Roger Scruton kallar oikophobia. Það er ótti og andúð á sínu eigin umhverfi.

Þeir sem þjást af þessari fælni taka alltaf málstað „þeirra“ gegn „okkur“ og finna hjá sér óstjórnlega þörf fyrir að gera lítið úr hefðum, venjum og stofnunum þess samfélags sem þeir tilheyra.

Ég á nokkra fésbókarvini sem virðast haldnir þessum kvilla á mjög háu stigi. Það er fátt sem fer meira í taugarnar á þeim en fólk sem telur íslensk stjórnvöld eigi að standa fast á rétti þjóðarinnar, hvort sem það er í viðræðum um makríl, hugsanlega inngöngu í ESB eða um Icesave-drauginn. Fólk sem ekki vildi að íslenska ríkið tæki á sig ábyrgð vegna Icesave-reikninganna, var í augum þessara manna þjóðernisfasistar af verstu sort. Þeir töldu hins vegar kröfur Breta og Hollendinga mjög eðlilegar og beiting hryðjuverkalaga eitthvað sem Ísland átti skilið. Það að Bretar skuli hafa beitt sér gegn Íslandi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er afgreitt sem eðlileg hagsmunagæsla af hálfu Gordon Brown, en setning neyðarlaganna hins vegar ófyrirgefanlegt brot íslenskra stjórnvalda gegn Bretum og Hollendingum.

Annað einkenni á þessum sömu oikofóbum er nánast trúarleg afstaða þeirra til alþjóðastofnana, einkum Sameinuðu þjóðanna, en einnig Evrópusambandsins.

Komi ályktun frá Sameinuðu þjóðunum um málefni sem varða Ísland þá er henni hampað eins og ef um nýja útgáfu af boðorðunum tíu væri að ræða. Af einhverri ástæðu telja þeir að fulltrúar Sádí- Arabíu, Kúbu, Kína og Líbýu hafi meira og merkilegra að segja um mannréttindi á Íslandi en íslenskir alþingismenn.

Eðlilegt er að hafa augun opin fyrir þjóðernisöfgum og útlendingaandúð, en það má ekki leiða til þess að menn fari alla leiðina í hina áttina og taki alltaf upp hanskann fyrir þá sem eiga í deilum við Ísland eða gagnrýna það sem hér gerist.