Hrafnarnir sáu að í síðasta tölublaði Heimildarinnar birtist viðhafnarviðtal við Höllu Hrund Logadóttir forsetaframbjóðanda. Halla er sem kunnugt í leyfi frá störfum sem orkumálastjóri vegna forsetaframboðsins.
Hröfnunum þótti margt af því sem haft var eftir Höllu í viðtalinu eftirtektarvert. Á einum stað segir hún:
„Nú hafa margir sagt að í starfi mínu sem orkumálastjóri hafi ég haft vökul augu yfir málaflokknum, að það vilji ekki missa mig þaðan. Ég vil hafa sömu vökulu augu og nýta rödd mína með sterkari hætti í embætti forseta Íslands.“
Og enn fremur:
„Kunni fólk vel að meta þær áherslur sem ég hef sett sem orkumálastjóri í samhengi við hagsmuni þjóðarinnar þá eru þar mínar sömu áherslur sem ég mun leggja áherslu á í orðræðu sem forseti Íslands.“
Nú rekur hrafnanna ekki minni til hvort almenningur hafi verið spurður um áherslur Höllu í störfum sínum sem orkumálastjóri. Þó bendir margt til þess að meirihluti landsmanna geri sér grein fyrir að lífskjör hér á landi muni ekki aukast nema með aukinni orkuöflun.
Þeir muna ekki heldur eftir því að almenningur hafi þakkað Höllu sérstaklega fyrir að innflutningur á jarðefnaeldsneyti hefur stóraukist undanfarin ár vegna þess að orkufyrirtækin hafa ekki getað mætt eftirspurn fyrirtækja sem skapa þjóðinni gjaldeyristekjur.
Sjálskaparvíti og orkuskortur
Í Viðskiptablaðinu í dag birtist grein eftir Hörð Arnarson forstjóra Landsvirkjunar. Þar fjallar hann um það sjálfskaparvíti sem hefur raungerst vegna þess að stjórnvöld hafa dregið lappirnar í virkjunarmálum. Hörður segir að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þann skort sem Íslendingar búa við í orkumálum. Í greininni segir:
„Þegar aðstæður breyttust á orkumörkuðum árið 2020 var Landsvirkjun vel undirbúin og gat með stuttum fyrirvara óskað virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun og síðan fyrir Búrfellslund þegar hann var settur í orkunýtingarflokk árið 2022. Allri tímafreku undirbúningsvinnunni var lokið. Hvorugt leyfið hefur þó fengist enn eins og áður er nefnt.“
Fast skotið á Orkustofnun
Hröfnunum dylst ekki að þarna er skotið föstum skotum að Orkustofnun undir stjórn Höllu Hrundar. Veiting virkjunarleyfa hefur dregist í höndum stofnunarinnar með grafalvarlegum afleiðingum.
Þegar viðtalið við Höllu er lesið ætti þetta ekki koma á óvart. Í viðtalinu er hún spurð út í skoðun þeirra sem telja að lífskjör hér á landi verði ekki varin nema með frekari orkuöflun og virkjunarframkvæmdum. Svar Höllu vakti athygli hrafnanna:
„Ef það á að ná markmiðum orkuskipta gerist það í gegnum betri nýtingu, mögulega í gegnum breytingar á samningum fyrirtækja við sína viðskiptavini, það er að orkuframleiðendur ákveði að selja til orkuskiptaverkefna í staðinn fyrir að selja til einhverra aðila, eða með nýrri framleiðslu.“
Þarna endurómar Halla málflutning samtaka á borð Landverndar og stjórnmálafla á borð við Vinstri græn og ákveðins hluta Samfylkingunnar. Hrafnarnir velta fyrir sér hvort þarna sé komið svarið við spurningunni um drátt Orkustofnunar á veitingum virkjunarleyfa?
Einnig má velta fyrir sér hvort orkumálastjóri sem telur að vernda eigi náttúruna um fram allt í stað þess að nýta græna orku og að stýra eigi orku í hendur þeirrar starfsemi sem nýtur hennar velþóknunar á kostnað annarrar sé hæf til að snúa aftur til starfa eftir að leyfinu lýkur?
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.