Maðurinn minn heldur því fram að ég kunni ekki á klukku. Þegar ég sé orðin allt of sein, af ýmsum orsökum sem eru engum að kenna nema mér, eigi ég það til að skamma hann, af því að ég fann ekki bíllykilinn sem hann var með í vasanum (sem er reyndar óþolandi). Jafnvel þótt það skýri kannski bara 30 sekúndur af 15 mínútna seinkun.
Ég held að það séu svo sem ekki óþekkt viðbrögð þegar hlutir fara úrskeiðis að beina athyglinni að einhverju smáatriði sem mögulega skiptir sáralitlu máli. En það er hægt að vera seinn og svo er hægt að vera aaaaallltof seinn. Ekki mínútum, heldur árum og jafnvel áratugum.
Þannig þekkja íbúar víða um land að þar hefur lífrænt sorp verið sérflokkað og endurunnið síðastliðin 15 ár eða svo. Það hefur verið tiltölulega einfalt og átakalaust. Það fer í sérstaka poka sem eru settir í innfellingu á tunnunum og allir una glaðir við sitt.
Það voru víst einhverjir ríkir, frekir karlar á dýrum bílum sem höfðu ekki leyft þeim sem komu með tunnurnar að fara inn í sorpskýlin.
Sorpa er núna að drattast í mark í þessu hlaupi. Breytt fyrirkomulag átti að taka gildi í vor en sum hverfi fá ekki að sjá þessar tunnur fyrr en í haust. Í fyrsta lagi.
En skýringin liggur fyrir: Upplýsingafulltrúi Sorpu bauð upp á hana í vikunni. Það voru víst einhverjir ríkir, frekir karlar á dýrum bílum sem höfðu ekki leyft þeim sem komu með tunnurnar að fara inn í sorpskýlin. Maður hefur á tilfinningunni að það sé verið að draga athyglina frá því að verkefnið hafi dregist og því sé verið að skamma einhverja fáeina jeppakalla.
En það geta jú allir lent í því að finna ekki lyklana sína.