Það er ofsögum sagt að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi kastað tifandi tímasprengju á íslenskan fjármálamarkað í síðustu viku
Allir vissu af tilvist tímasprengjunnar og hún var einungis dregin fram á blaðamannafundinum sem fór fram á fimmtudaginn.
Eigi að síður er mörgum spurningum ósvarað og útspil stjórnvalda hefur aukið enn frekar á þá óvissu sem nú ríkir á fjármálamörkuðum. Sú óvissa mun ríkja fram að þeim tíma sem viðunandi lausn finnst á málefnum ÍL-sjóðs. Lausn sem kröfuhafar og ríkissjóður geta sætt sig við.
Það vakti athygli við kynninguna fimmtudag að ráðherra minntist varla einu orði á þá staðreynd að lífeyrissjóðir landsmanna eru helstu eigendur þeirra skuldabréfaflokka sem voru gefnir út af Íbúðalánasjóði. Með öðrum orðum þá eru það launþegar og lífeyrisrétthafar sem taka á sig þá skerðingar sem þær lausnir sem fjármálaráðherra leggur fram á málefnum ÍL-sjóðsins fela í sér. Í þessu samhengi er vert að huga að hagsmunum þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðnum annars vegar og þeirra sem starfa hjá hinu opinbera hins vegar. Reynslan kennir að ekki gengur jafnt í alla í þessum efnum.
Að sama skapi verður að gera athugasemdir við þá framsetningu fjármálaráðherra að tillögurnar í skýrslu hans um málefni ÍL-sjóðsins leiði til sparnaðar fyrir ríkissjóð og þar af leiðandi skattgreiðendur. Öllum má vera ljóst að staða sjóðsins er með þeim hætti að landsmenn verða fyrir verulegu tjóni á endanum óháð hvor megin borðsins það endar. Nú þegar hafa skuldabréfasjóðir í eigu fjármálafyrirtækja fær niður eign sína um marga milljarða vegna málsins og þar af leiðandi eru höggin farin að dynja á sparifjáreigendum og væntanlega er það forsmekkur þess sem koma skal.
Eins og fram hefur komið kom útspil ráðherra lífeyrissjóðunum í opna skjöldu. Vafasamt er að tala um skort á samráði í þessum efnum enda hefðu óformlega viðræður stjórnvalda við kröfuhafana brotið við í bága við almenn viðmið í meðferð innherjaupplýsinga. En samt sem áður er margt sem bendir til þess að ráðuneytið hafi ekki hugsað um alla fleti málsins áður en boðað var til blaðamannafundarins.
Nú blasir við að óvissa vegna útspils stjórnvalda verður ríkjandi til fyrirsjáanlegrar framtíðar. Vafalaust munu einhverjir kröfuhafar leita réttar síns fyrir dómstólum. Hvaða áhrif mun þessi óvissa hafa fyrir skuldabréfamarkaðinn? Augljós svör við þeirri áleitnu spurningu blasa ekki við. Kauphöllin hefur setti skuldabréf ÍL-sjóðs á athugunarlista í kjölfar fundar og kynningar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í gær. Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar segir ákvörðunina hafa verið tekna vegna óvissu um „útgefandann og verðmyndun bréfanna“. Ekki verður í fljótu bragði séð að þessari óvissu verði eytt á næstunni og því má velta fyrir sér áhrifum málsins á aðra útgefendur skuldabréfa á vegum hins opinbera.
Orð Kauphallarforstjórans um óvissuna um verðmyndun bréfanna leiðir hugann að öðrum þætti málsins: Þeirri staðreynd að skuldabréfaflokkar Íbúðalánasjóðs sáluga hefur verið notað sem viðmið í margvíslegum lánaviðskiptum hér á landi.
Varúðarorð Más Wolfgang Mixa, lektors í fjármálum við HÍ og stjórnarmanns í Almenna lífeyrissjóðnum, í Kastljósi á dögunum um að tillögur stjórnvalda gætu grafið undan lánshæfismati ríkissjóðs vöktu upp hörð viðbrögð fjármálaráðherra. Hann vísar þeim alfarið á bug og segir þvert á móti að tillögur um uppgjör á sjóðnum ætti að styrkja lánshæfismat ríkisins fremur en veikja. Er það svo? Að minnsta kosti er þörf að fá svör við þeirri spurningu hvort að stjórnvöld hafi átt í samskiptum við þau lánshæfismatsfyrirtæki sem máli skipta í þeim efnum ? Einnig má spyrja um hvort og hvernig samskiptum ráðuneytisins við Fjármálaeftirliti og Seðlabankann hafi verið háttað við vinnslu tillagnanna í ljósi þeirra óvissu sem þær skapa á fjármálamörkuðum.