Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, var í viðtali á Ríkisútvarpinu í byrjun mánaðarins. Þar sagði hann að Hagkaup myndi ekki koma á laggirnar vefverslun með áfengi, líkt og Sante, Heimkaup og fleiri aðilar.

Sigurður sagði:

„Okkur finnst skrýtið að löggjafarvaldið sé ekki búið að skýra þetta betur og skilji lögin svolítið eftir í lausu lofti, þar sem menn eru að láta reyna á kerfið. Við höfum tekið þá stefnu að blanda okkur ekki í þann slag að vera á þessu gráa svæði. Við köllum frekar eftir skýrum fyrirmælum. Við ætlum inn á þennan markað en ætlum ekki að fjárfesta í ákveðnum innviðum í kringum þessa netverslun ef stjórnvöld myndu síðan allt í einu afturkalla þessar reglur og breyta þeim.“

Viðhorf Hagkaups er skiljanlegt en það er hins vegar einnig til marks um að Hagkaup er ekki sama Hagkaup og eitt sinn. Pálmi Jónsson, stofnandi Hagkaups, var brautryðjandi á íslenskum matvörumarkaði. Hann stofnaði fyrirtækið árið 1959 og í upphafi var það póstverslun.

Hann barðist meðal annars gegn því kerfi sem hafði verið við lýði í áratugi á Íslandi, þar sem ríkisvaldið ákvað verð á fjölmörgum vörum, bannaði að jógúrt sem framleitt var á Norðurlandi væri selt á Suðurlandi, heimilaði sumum verslun með ákveðnar vörur og olli þar með einokun og svo mætti lengi telja.

Almenningshlutafélag?

Árið 1990 var Pálmi Jónsson kjörinn viðskiptamaður ársins af Frjálsri verslun. Í tilefni af því var rætt við Pálma og kom þar margt áhugavert fram:

Kæmi til greina að breyta fjölskyldufyrirtækinu Hagkaup í almenningshlutafélag? „Það kæmi vel til greina. Raunar hefur það verið rætt og er fremur líklegt.“

Sú saga hefur verið sögð að Hagkaup hafi fært almenningi meiri kjarabætur með nýjum verslunarháttum en barátta verkalýðshreyfingarinnar um árabil. Hvað viltu segja um þetta?

„Ég er sannfærður um að Hagkaup hefur fært almenningi verulegar kjarabætur. Hve miklar er erfitt að segja.“ Er það rétt að Pálmi Jónsson, eigandi eins stærsta fyrirtækis í landinu, sé ekki með sérstaka skrifstofu í fyrirtækinu?

„Ég hefi ekki haft skrifstofu, það er rétt. Slíkt hefur marga kosti utan að verja mann fyrir rukkurum og blaðamönnum, þá veldur það því að maður er miklu meira á ferðinni um fyrirtækið og sér með eigin augum vandamálin sem þarf að leysa og er því fljótari að bregðast við þeim. Við í Hagkaup köllum þetta Rekstur á röltinu!“

Pálmi Jónsson hafði þarna lengi velt fyrir sér að gera Hagkaup að almenningshlutafélagi. Í dag er Hagkaup á markaði sem hluti af samstæðu Haga.

***

Það má velta fyrir sér hvort Hagkaup hefði náð að lækka vöruverð á Íslandi ef það hefði verið almenningshlutafélag sömu gerðar og í dag. Hefði verið sami dugurinn, áræðnin og þrautseigjan að berjast við ríkiskerfið, heildsalana og hina kaupmennina?

Það er mikið umhugsunarefni með tilliti til skráðu félaganna á Íslandi. Í dag eiga lífeyrissjóðirnir meira en helming í mörgum þessara félaga.

***

Lífeyrissjóðirnir eiga að minnsta kosti 77% hlutafjár í Högum. Óðinn er sannfærður um að það sé ein ástæða þess að Hagkaup fari nú ekki sömu leið og Heimkaup gerði og stofni erlent dótturfélag og vefverslun með áfengi.

Hin ástæðan er sú að stjórnendurnir, bæði stjórnarmenn og framkvæmdastjórarnir, vilja ekki fyrir nokkra muni eiga viðskipti sem minnsti vafi er á að muni standast skoðun dómstóla.

Er þetta fyrirkomulag neytendum til hagsbóta?

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 14. júlí 2022.