Á þessum vettvangi í ágúst var bent á að Ríkisútvarpið hafi gerst brotlegt við eigin starfsreglur þegar það birti sjónvarpsauglýsingar VR án þess að fram kom hver hinn raunverulegi auglýsandi væri.

Um er að ræða auglýsingaherferð undir yfirskriftinni „Ég bara spyr?“ og hefur hún verið áberandi í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum frá því í sumar.

Í fyrstu voru auglýsingarnar birtar án þess fram kæmi að VR stendur að baki herferðinni. Á heimasíðu RÚV má finna hvaða reglur gilda um sölu auglýsinga og birtingu þeirra. Í þriðju grein reglnanna, sem fjallar um skilyrði fyrir birtingu auglýsinga, segir:

Jafnan skal vera ljóst af innihaldi auglýsingar hver réttur og eiginlegur auglýsandi er.

Í samlesnum auglýsingum skal tilgreining á auglýsanda að jafnaði vera hluti af auglýsingu. Heimilt skal þó að birta auglýsingar fyrir sérstaka viðburði, opnun sýninga o.s.frv. þegar hluti af því að auka spennu fyrir viðkomandi viðburð er að auglýsandinn sé ekki auðkenndur. Í slíkum tilvikum skal þess gætt að ekki sé gefið í skyn að auglýsandi sé annar en raunin er, ekki sé viðhafður samanburður við aðrar vörur og að auglýsingin sé aðeins birt skömmu fyrir slíkan viðburð.”

Fimmta grein reglnanna fjallar um auglýsingar hagsmunasamtaka, stjórnmálaflokka og stuðningsmanna flokka, einstakra málefna og einstaklinga. Þar segir:

Staðhæfingar settar fram sem staðreyndir í auglýsingum hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka skulu vera sannreynanlegar með einföldum og aðgengilegum hætti og skal auglýsandi sýna fram á það verði þess krafist.

Óheimilt er að uppnefna einstaka menn, stofnanir, félagasamtök eða stjórnmálaflokka. Skýrt skal vera hver stendur að auglýsingu sbr. ákvæði 3 gr. Almennt skal greiðandi auglýsingar tilgreindur og félög sem að auglýsingu standa skulu formbundin. RÚV sölu er rétt að hafna auglýsingum frá óformbundnum félagsskap ef heiti eða vísan til hans er almenns eðlis og gæti átt við fleiri aðila en einn.“

Birting auglýsingarinnar í Ríkisútvarpinu án þess að getið var hver auglýsandinn er því skýlaust brot á ofangreindu. Þegar á þetta var bent á þessum vettvangi í ágúst var tekið fram að vafalaust yrði málið tekið upp á fundum útvarpsráðs. Það reyndist rétt. Á fundi ráðsins 31. ágúst er það rætt. Í fundargerð kemur eftirfarandi fram:

„Ábending kom frá stjórnarmanni um auglýsingu á vegum VR. Ekki hafi komið fram að auglýsingin hafi verið frá þeim í fyrstu auglýsingum herferðarinnar og benti á umfjöllun í Viðskiptablaðinu um málið.“ Með öðrum orðum hefur þetta skýlausa brot ekki haft frekari eftirmála.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 27. október 2022.