Óvanalegt er að pólitík sé ofarlega á baugi um hásumarið. Eigi að síður hefur umræðan í sumar einkennst af fréttum af titringi á stjórnarheimilinu. Framganga Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra og stjórnsýslan í ráðuneyti hennar vegna hvalveiðibannsins hefur vakið reiði innan Sjálfstæðisflokksins og það sama gildir um hvernig hún beitir Samkeppniseftirlitinu í upptakti til að hrinda úr vör áformum um kerfisbreytingar á hinu ágæta og arðsama fiskveiðistjórnarkerfi.
Hér er um að ræða reiði og pirring sem hefur verið að safnast upp á meðan Sjálfstæðisflokkur hefur átt í samstarfi við Framsóknarflokk og Vinstri græn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur.
En þó svo að nefnt hafi verið að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins séu ósáttir með stefnu ríkisstjórnarinnar í ákveðnum málaflokkum sem samstarfsflokkarnir fara með má leiða líkum að því að hann risti dýpra og beinist að útgjaldaaustri.
Rauði þráðurinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hefur verið gegndarlaus útgjaldaaukning. Vissulega var hægt að rökstyðja að ríkið dreifði silfrinu meðan á heimsfaraldrinum stóð og allt var á huldu um efnahagslegar afleiðingar hans.Vandinn er bara sá að ríkisstjórn Katrínar hélt áfram á sömu braut eftir að faraldrinum lauk. Þetta hefur verið gert með fullum stuðningi þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir mikla þenslu í hagkerfinu og þráláta verðbólgu hafa stjórnvöld ekki gert neitt annað en að stíga á bensíngjöfina þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs. Þannig má nefna að á tveimur árum frá útgáfu fjármálaáætlunar árið 2021 til útgáfu fjármálaáætlunar árið 2023, hafa væntingar ríkissjóðs um heildarútgjöld á árinu 2025 aukist um 24 prósent.
Mikill halli er á rekstri ríkissjóðs og verður áfram á næstu árum samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Allar líkur eru á því að hallinn verði mun meiri en núverandi ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Skatttekjur ríkisins hafa aukist verulega í þeirri miklu þenslu sem ríkt hefur og viðbúið er að þær lækki þegar dregur úr umsvifum í hagkerfinu. Þess sjást nú þegar merki að vaxtahækkanir Seðlabankans eru farnar bíta á og þegar fram í sækir mun það hafa áhrif á skatttekjur ríkisins.
Þessi hallarekstur er meðal annars tilkominn vegna framgöngu ráðherra og þingmanna ríkisstjórnarflokkanna sem einkennist af því hugarfari að lausn alls vanda felist í auknum ríkisútgjöldum. Sumir ráðherrar virðast ekki geta farið gegnum einn vinnudag án þess að lofa meiri útgjöldum. Aldrei er spurt hvort útgjaldaaukningin skili betri þjónustu eða hvort hún auki skilvirkni.
Í raun og veru snýst hin pólitíska barátta á Alþingi um boð og yfirboð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um enn meiri ríkisútgjöld. Og eftir höfðinu dansa limirnir. Þegar gengið er um miðborgina er hvergi hægt að líta án þess að sjá stórframkvæmdir á vegum stofnana og fyrirtækja á vegum ríkisins. Þessar framkvæmdir eru meðal annars til að rýma þá miklu fjölgun sem hefur verið á opinberum störfum í þessum stofnunum undanfarna áratugi. Það sama gildir um stjórnsýsluna. Ekki sér fyrir endann í þessum efnum.
Alls konar fyrir aumingja var slagorð Besta flokksins í borginni á sínum tíma. Slagorð sem sett var fram í gríni og háði er nú orðið leiðarstef í íslenskum stjórnmálum og þverpólitísk sátt virðist ríkja um það. Það er fyrst og fremst sökum þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins leika þetta stef rétt eins og þingmenn annarra flokka að fylgi flokksins mælist lítið í sögulegu samhengi.
Það er fyrir löngu tímabært að þingmenn flokksins staldri við og íhugi fyrir hvað sjálfstæðisstefnan stendur í efnahagsmálum