Sem íbúi í sveitarfélagi gerir maður ráð fyrir að fá örfáa hluti fyrir útsvarið sitt. Það er að ruslið sé hirt, götur séu mokaðar, börn fái pláss í leikskólum og komist svo í grunnskóla þegar fram líða stundir. Þau sem standa höllum fæti eiga líka að geta fengið aðstoð.

Í Reykjavík þar sem útsvarið er í hæstu lögleyfðu mörkum fer ekki mikið fyrir þessari þjónustu. Ég bý í Laugardalnum þar sem fasteignamatið og þar með skattarnir á íbúðinni minni hafa hækkaði úr öllu valdi síðan ég flutti í hverfið. Nýlega tók verktaki borgarinnar upp á því að fjarlægja flokkunartunnurnar okkar án fyrirvara og ég hafði því samband við borgina til að fá plast- og pappírstunnu í staðinn.

Ég bjóst við það gæti ekki tekið langan tíma en borgin ræður auðvitað ekki við að gera það fyrr en 2 mánuðum síðar. Á meðan þarf að fara með allt í grenndargámana sem eru svo ekki tæmdir eins og hefur verið fjallað um. Börnin mín fengu pláss í leikskóla langt gengin á þriðja ári og þegar þau loks urðu nógu gömul til að komast í grunnskóla er hann svo myglaður að skólastjórinn ásamt fleira starfsfólki hefur sagt upp störfum. Börnin geta aftur á móti ekki sagt upp grunnskólagöngunni og sitja því föst í mygluðum skólanum sem borgin hyggst ekki laga fyrr en á þarnæsta skólaári.

Borgin hefur staðið í gegndarlausri útgjaldaaukningu síðustu ár þrátt fyrir að tekjuhliðin hafi aldrei staðið betur þar sem tekjur af útsvari hækka í takt við batnandi efnahag fólks og svo hafa fasteignaskattar hækkað út í hið óendanlega. Maður spyr sig því hvert er allur þessi peningur að fara því sannarlega er það ekki í grunnþjónustuna. Kannski í kynnisferðir borgarfulltrúa?

Höfundur er hugbúnaðarverkfræðingur.