Þau tíðindi urðu í vikunni, að Vísir velti mbl.is úr efsta sæti lista Modernus, sem mælir veflestur á Íslandi með samræmdum og viðurkenndum hætti. Vísir setti raunar met, því 684.497 notendur kíktu á Vísi í liðinni viku en „aðeins“ 668.603 á Mogga, sem einnig er met. Fréttir og ræmur af veðrahamnum höfðu þar örugglega sitt að segja, bæði fyrir innlenda og erlenda lesendur. Ekki er þó allt sem sýnist. Vísir naut nefnilega sérstaks erlends liðsauka; því frétt hans um fylgisaukningu Pírata í skoðanakönnun rataði á forsíðu Reddit, sem er einhver vinsælasti ábendingarvefur heims.
Þetta gefur e.t.v. vísbendingar um það hvernig íslenskir fjölmiðlar geti stöku sinnum keppt á alþjóðlegum markaði. Það hefur örugglega ekki mikið að segja í hinu daglega harki, því hvorki Ellingsen, Eymundsson né Elko munu borga grænan eyri fyrir milljarð Reddit-innlita. En það er mögulegt að láta Google frænda eða ámóta þjónustur sjá um auglýsingasölu til erlendra gesta, þá sjaldan þeir gægjast inn á íslenska vefinn að skoða eldgos, stórhríð eða norðurljós. Það getur vel munað um minna fyrir miðla á borð við Mogga og Vísi, sem eru fyrir löngu búnir að reka sig undir rjáfur reglulegs lesendafjölda.
***
Í því samhengi er kannski fróðlegt að minnast þess að í Lundúnum er sæmilega vinsælt blað, kannski ekki ýkja virt, sem heitir Daily Mail. Vefdeildin hjá því er svo flink að koma slebbafréttum á framfæri, að Daily Mail er langvinsælasti blaðavefur heims. Og á raunar æ minna skylt við pappírsútgáfuna, sem er nærri endimörkum vaxtarins meðan vefurinn er rétt að byrja að leggja heimsbyggðina að fótum sér.
Það er því kannski ekki skrýtið að sjá öllu virtari pappír, The Guardian, vera kominn á sömu buxur. Guardian gerir út á hina beturmenntuðu í hópi breskra vinstrisinna, en hefur mátt þola mjög dvínandi sölu á undanförnum árum. Hins vegar nýtur blað- ið nokkurs álits víða um heim sem hugmyndafræðileg deigla vinstrimanna, auk þess sem það er jafnan prýðilega skrifað. Það hyggst blaðið gera sér að féþúfu, fyrst og fremst meðal enskumælandi manna í Norður-Ameríku og Ástralíu, en því þarf ekki að vera nema miðlungi ágengt til þess að reksturinn verði alveg ljómandi.
The New York Times er með svipuð áform um alþjóðlega áskriftarsölu, en blaðið færi lóðbeint á hausinn ef það nyti aðeins tekna af heimamarkaði sínum. Ekki svo að skilja að erlendu tekjurnar séu farnar að skila sér í miklum mæli, blaðinu væri löngu blætt út ef auðugir eigendur hefðu ekki hlaupið undir bagga.
***
Fjölmiðlun er vitaskuld sífellt að verða alþjóðlegri og ef marka má hvernig íslenskir vefnotendur deila fréttum hafa aldrei fleiri Íslendingar verið áskrifendur að erlendum veffréttum. Bæði frá hefðbundum miðlum, en ekki þó síður hjá ýmsum hreinum netmiðlum, sem flestir eru engilsaxneskir en eiga sér mjög alþjóðlegan lesendahóp.
Æ færri eru hins vegar áskrifendur að hefðbundnum fréttamiðlum (hugsanlega er rétt að horfa á það í samhengi við hvernig áskriftum að afþreyingarmiðlum hefur fjölgað mjög að sama skapi), en það færist mikið í vöxt að fólk fylgist með eða verði vart við fréttir á félagsmiðlum á borð við Facebook. Sérstaklega á það við um fólk undir þrítugu, en þó sú kynslóð geti verið dugleg til neyslu á netinu, eru fréttir eitt hið síðasta sem henni dettur í hug að borga fyrir.
Það kann þó að breytast eftir því sem „kostuð umfjöllun“ verð- ur algengari, hneykslunum um hvernig auglýsendur ráða ferð fjölgar og lesendur átta sig á að slíkum „fréttum“ er ekki treystandi út í sjoppu hvað þá meir.
***
Menn þurfa samt sífellt að vera á varðbergi. Þess mátti t.d. sjá stað í vikunni, þegar erlendir fjölmiðlar fóru að fjalla um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og afdrif hennar.
Nú var ekki unnt að ætlast til þess að þeir áttuðu sig betur á þeim snúningum öllum en hinir íslensku miðlar, en það var þó ekki þannig að þeir virtust velkjast í vafa um eitt eða neitt.
Hér er ekki verið að víkja að ýmsum þeim einkennilegu fréttum, sem ljóslega áttu sér íslenska atkvæðamenn sem helstu heimildir, heldur því furðulega stefi, að endalok aðildarviðræðunnar mætti fyrst og fremst rekja til makríldeilunnar. Sú kenning var ekki stutt neinum gildum rökum, engum frumheimildum eða tilvitnunum, en samt mátti nú lesa það í alls kyns virtum og málsmetandi miðlum.
Ekki verður séð að þar hafi neitt búið að baki annað en löngunin til þess að geta sett fram smellna fyrirsögn um heilagan makríl eða ámóta. Allt fyrir smellinn.