Tilkynning Leigjendasamtakanna þar sem stjórnmálaflokkum voru gefnar einkunnir eftir því hve vel stefna þeirra rímar við áherslur samtakanna vakti kátínu hrafnanna.
Öllum að óvörum var Sósíalistaflokkurinn efstur í einkunnagjöf Leigjendasamtakanna og Sjálfstæðisflokkurinn neðstur. Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, er eins og þekkt er orðið í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn en þó er tekið fram að hann hafi stigið til hliðar á meðan kosningabaráttu stendur. Starfandi formaður hafi ásamt stjórn því séð um einkunnagjöfina.
Ungir umhverfissinnar fetuðu í fótspor leigjenda og gáfu út sína eigin einkunnagjöf og kom niðurstaðan þar ekki síður á óvart. Píratar hrepptu toppsætið og skammt undan komu Vinstri græn. Svo skemmtilega vill til að Finnur Ricart Andrason, sem leiðir lista Vinstri grænna í Reykjavík norður, var þar til fyrir skömmu forseti Ungra umhverfissinna.
Hrafnarnir bíða nú átekta eftir því að stjórn VR gefi út ályktun þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að stefna Flokks fólksins sé sú sem samrýmist best sýn stjórnarinnar á hvernig samfélagsgerð landsins skuli háttað. Engan skildi svo undra ef Hagsmunafélag kvenna í hagfræði myndi í kjölfarið lýsa yfir að Sjálfstæðisflokkurinn sé með langbestu stefnuna í efnahagsmálum.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.