Logi Einarsson menningarráðherra hefur lagt í samráðsgátt frumvarp um stuðning til einkarekinna fjölmiðla. Frumvarp þess efnis er til eins árs og felur í sér óbreytt fyrirkomulag, fyrir utan lækkun á þaki styrkja til miðla sem mest fá. Þannig getur hlutfall stuðnings til hvers umsækjanda ekki orðið hærra en 22% en var áður 25%.
Þessi breyting hefur lítil áhrif á stærstu fjölmiðlana, Morgunblaðið og Vísi, en þeir fengu úthlutað 22,49% af heildarúthlutuninni í fyrra. Þar með er ekki sagt að ríkisstjórnin ætli ekki að hrinda í framkvæmd hótunum Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Flokks fólksins, um að refsa Morgunblaðinu fyrir fréttaflutning sinn um málefni flokksins með lækkun þeirra ríkisstyrkja sem sendir eru árlega upp í Hádegismóa.
Frumvarp menningarráðherra er til eins árs en til stendur að leggja fram annað frumvarp í haust um skipan styrkjakerfis fjölmiðla til frambúðar.
Það er auðvitað fráleitt fyrirkomulag að ríkið styrki fjölmiðlarekstur yfir höfuð. Hótanir þingmanna á borð við Sigurjón og orðræða annarra þungavigtarmanna innan Flokks fólksins um ákveðna fjölmiðla sýnir einmitt hvernig þetta fyrirkomulag getur hreinlega ógnað sjálfstæði þeirra.
Auk þess eru ríkisstyrkir til fjölmiðla ekki góð meðferð á skattfé borgaranna. Það er heldur engin nauðsyn á slíkum styrkjum. Auglýsingamarkaðurinn hér á landi er nægilega stór til að fjölbreytt fjölmiðlastarfsemi geti þrifist án ríkisstyrkja og það sama á við áskriftartekjur.
Vandamálið er að ríkisfjölmiðillinn tekur til sín alltof stóra sneið af kökunni. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar er hlutdeild Ríkisútvarpsins í tekjum af útvarpsrekstri tæplega 70% og ríflega 30% þegar kemur að sjónvarpstekjum. Hlutfall Ríkisútvarpsins í heildartekjum fjölmiðla er um 27%.
Þrátt fyrir að sérstaklega sé kveðið á um í þjónustusamningi ríkisins við Ríkisútvarpið að stefna skuli að því að draga úr umsvifum stofnunarinnar á auglýsingamarkaði láta stjórnendur stofnunarinnar sér fátt um finnast. Um þetta var fjallað í Viðskiptablaðinu fyrir nokkrum vikum. Þar segir:
„Ríkisútvarpið gerir ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi auglýsingasölu á þessu ári. Annað árið í röð er því ekki tekið tillit til ákvæðis í þjónustusamningi RÚV við ríkið fyrir tímabilið 2024-2027, sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra, skrifuðu undir í lok árs 2023. Samningurinn kveður sérstaklega á um að minnka eigi umsvif ríkismiðilsins á auglýsingarmarkaði.
Stjórn RÚV fjallaði meðal annars um fjárhagsáætlun ársins 2025 á fundi í lok nóvember sl. Í fundargerð kemur fram að áætlað sé að auglýsingatekjur verði um 2,7 milljarðar árið 2025. Auglýsingatekjur hafi að raunvirði staðið í stað frá árinu 2023…”
Hin augljósa lausn á rekstrarvanda fjölmiðla á Íslandi er einfaldlega að draga Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Að sama skapi mætti jafna samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla við erlenda miðla og efnisveitur og leyfa áfengisauglýsingar.
Engin lausn felst í ríkisstyrkjum og að öllu óbreyttu er hætta á því að staða Ríkisútvarpsins styrkist enn frekar á meðan fjölbreytni einkarekinna fjölmiðla minnki enn frekar.
Um miðjan febrúar sendi Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, bréf fyrir hönd stjórnar bankans til stjórnar Íslandsbanka þar sem óskað var eftir viðræðum um mögulega sameiningu bankanna.
Stjórn Íslandsbanka hafnaði þessari samningaumleitan Arion banka með bréfi sem var opinberað á fimmtudag í síðustu viku. Ekki kom fram í því bréfi hvort leitað hefði verið álits hjá nýstofnuðu ungmennaráði bankans en eins og fram kemur í nýjustu árs- og sjálfbærniskýrslunni er það skipað starfsfólki sem „tilheyrir Z-kynslóðinni eða fólki sem fæddist eftir 1997. Sá hópur mun funda reglulega og fá að hafa áhrif á ákvarðanatöku í bankanum og verður spennandi að fylgjast með þessu þróast áfram.“ En það er önnur saga.
Áhugavert var að fylgjast með fréttaflutningi Morgunblaðsins af framvindu þessa máls. Blaðamenn Morgunblaðsins virtust hafa mestan áhuga á að vita hvort Benedikt bankastjóri væri örugglega ekki bara að sprella með þessu og gera bjölluat í Norðurturninum í Kópavogi.

Í frétt Viðskiptamoggans um málið fyrir hálfum mánuði var Benedikt hreinlega spurður út í hvort honum væri „raunverulega alvara“ með ósk bankans um sameiningarviðræður við Íslandsbanka.
Morgunblaðið ræddi svo við Jón Guðna Ómarsson, bankastjóra Íslandsbanka, eftir að ljóst varð að bankinn hafði ekki áhuga á að fara í sameiningarviðræður við Arion. Þar var hann spurður hvort hann teldi að Benedikt hefði ekki örugglega verið að grínast með þessu öllu saman. Rétt er að halda til haga svari Jóns Guðna sem var í stuttu máli það að hann telur að bankastjóra Arion hafi verið full alvara með tilboðinu.
Ægivald Samkeppniseftirlitsins hér á landi er slíkt að erfitt er að telja sér um trú um annað en að full alvara hafi verið með tilboði stjórnar Arion um sameiningarviðræður við Íslandsbanka. Vafalaust hefur málið verið komið á það stig að stjórn bankans hafi ekki talið stætt á öðru gagnvart
eftirlitsaðilum en að setja það í formlegt ferli og þar af leiðandi var bréfið sent.
Þó svo að ekkert verði að sameiningarviðræðum Arion og Íslandsbanka má teljast líklegt að þessi umleitan stjórnar Arion banka verði til þess að koma hreyfingu á hlutina á fjármálamarkaði á næstu misserum.
Á þessum vettvangi í síðustu viku var viðtal við Ólaf Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor á Rás 2 gert að umtalsefni. Tilefni viðtalsins var að Alþingi var að hefja störf og barst talið meðal annars að orðræðu stjórnmálamanna í garð fjölmiðla að undanförnu. Þá sérstaklega orð Ingu Sælands, formanns Flokks fólksins, um að Morgunblaðið væri falsfréttamiðill og endurómun Sigurjóns Þórðarsonar, samflokksmanns hennar, á sömu skoðun og sá frjói jarðvegur sem þær yfirlýsingar féllu í á samfélagsmiðlum miðað við ummæli og lyndiseinkunnir þingmanna Samfylkingar og Viðreisnar.
Vakin var athygli hér að Ólafur tók að einhverju leyti undir gagnrýnina á Morgunblaðið og sagði blaðið ekki áreiðanlegan fréttamiðil og „áróðursnepil“. Endurómaði hann þar með skoðun þekktra stuðningsmanna Samfylkingarinnar á borð við Hallgrím Helgason rithöfund og Össur Skarphéðinsson byggingaverktaka. Í pistlinum sagði að hermt væri að Ólafur væri ásamt Össuri og Ólafi Ragnari Grímssyni í hópi þeirra sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra leiti ráða hjá. Ólafur vísaði þessu til föðurhúsanna í Facebook-færslu. Er Ólafur beðinn afsökunar á þessari rangfærslu í pistlinum.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. mars 2025.