Eins og hrafnarnir hafa áður bent á er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, einn mikilvægasti Íslendingur samtímans og því ber að leggja við hlustir þegar hún tekur til máls. Þórdís tók upp pennann í vikunni og birti aðsenda grein á Vísi undir fyrirsögninni: Borgarstjórn á beinni braut. Það er að borgarstjórnarmeirihlutinn sé á beinni braut er fréttnæmt fyrir þann mikla fjölda foreldra sem ekki geta aflað sér tekna vegna svikinna loforða um leikskólapláss um þessar mundir.
Og ekki ættu tíðindin að vera minni fyrir þá sem lögðu á sig að lesa árshlutauppgjör Reykjavíkurborgar sem birt var á dögunum en sem kunnugt er þá er reksturinn í kalda kolum. En Þórdís hefur ekki áhyggjur af þessu og telur brýnna að minna borgarbúa á að það sé mjög gaman á fundum hjá borgarstjórnarmeirihlutanum og að hann hafi meira segja gefið sér tíma til að fara yfir loforðalistann á fundi í vikunni.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. september 2022.