Þórdís Kolbrún Reykfjörð fjármálaráðherra áttar sig á að vandi ríkissjóðs felst í óheftum útgjöldum hins opinbera sem hafa fengið að vaxa óáreitt um langa hríð. Þetta kom fram í fyrsta óundirbúna fyrirspurnartíma hennar sem fjármálaráðherra á Alþingi í síðustu viku.
Vafamál er hvort þeir þingmenn sem létu hæst í þessum fyrirspurnum átti sig á þessu grundvallaratriði. Það voru þær Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Þær gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi í baráttunni við verðbólguna.
Eins og Þórdís benti á og flestir vita þá verður ekki komið böndum á verðbólguna nema böndum verði komið á ríkisútgjöldin og kjarasamningar verði til lykta leiddir á skynsamlegan máta.
Kristrún og Þorgerður átta sig ekki á þessu grundvallaratriði. Þær boða lausnir sem fela í sér stórfelldar aukningar á ríkisútgjöldum og skattheimtu því samhliða. Á dögunum kynnti Kristrún stefnu flokksins í heilbrigðismálum. Hún felur í sér tugmilljarða útgjaldaaukningu sem fjármagna á með skattlagningu á sjávarútveginn og eitthvað sem kallað hefur verið „misræmi skattlagningar fjármagns- og launatekna“. Í því rangnefni felst einfaldlega frekari skattlagning á millitekjufólk og einyrkja.
Hugmyndaauðgi Viðreisnar er ekki meiri en Samfylkingarinnar. Fyrir tæpum tveimur vikum var Þorgerður Katrín gestur Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi á Bylgjunni. Þar gekk þáttastjórnandi á Þorgerði og bað um refjalaus svör við hvað Viðreisn vildi gera til að kveða niður verðbólguna. Lausn hennar var að stórauka útgjöld til heilbrigðismála og skattleggja útgerðina.
Hverjum dettur í hug að útgjaldaaukning um tugmilljarða í rekstri ríkisins og skattlagning á atvinnulífið og millistéttina komi böndum á verðbólguna?
Helsta hráefnið í orðasalati stjórnarandstöðunnar í umræðunni um verðbólguvandann og hlutverk ríkisins er skattahækkanir. Alla jafna er horft til sjávarútvegsins og fjármagnstekna í þessum efnum. Skattspor útvegsins hleypur nú þegar á tugmilljörðum króna á ári hverju. Það er barnalegt að halda því fram að hægt sé að auka það enn frekar til að standa undir tugmilljarða útgjaldaaukningu ríkisins til viðbótar.
Fjármagnstekjur einstaklinga námu samkvæmt Hagstofunni um 240 milljörðum í fyrra. Fólk eldra en sextugt greiddi meira en helminginn af þessari upphæð í fjármagnstekjur. Stærsti hluti þessa hóps eru ellilífeyrisþegar. Er þetta sá hópur sem horft er til þegar boðaðar eru stórfelldar hækkanir á fjármagns-tekjuskatti til að fjármagna frekari ríkisútgjöld.
Í nýlegu svari við fyrirspurn sem Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sendi til fjármálaráðherra um fjölda einstaklinga sem höfðu fjármagnstekjur umfram launatekjur og reiknað endurgjald á árunum 2013-2022 kemur fram að langstærsti hluti þeirra hafði engar tekjur. Kallast þetta á við aldursskiptingu þeirra sem greiða fjármagnstekjur.
Þá kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Óla Bjarnar að þeir sem greiða mest í fjármagnstekjur í hópi þeirra sem hafa slíkar tekjur umfram launatekjur eru með laun frá 500 þúsund til tæprar milljónar á mánuði. Þeir sem hafa á bilinu hundrað þúsund til hálfa milljón í laun á mánuði auk fjármagnstekna umfram það greiða álíka mikið í þann skatt og þeir sem eru með eina til tvær og hálfa milljón á mánuði. Í fyrrnefnda hópnum eru hátt í þrjú þúsund manns meðan ríflega 650 eru í þeim síðarnefnda.
Vandi ríkissjóðs felst í stjórnlausri útgjaldaaukningu. Lausnin á vandanum felst ekki í enn meiri útgjöldum og skattlagningu á stofna sem eru ekki til staðar