Stefán Einar Stefánsson hefur að undanförnu boðið upp á skemmtidagskrá Framsóknarmanna í dægurmálaþætti sínum sem sýndur er á vefsíðu Morgunblaðsins. Týr er ekki frá því að þetta sé skemmtilegasti þátturinn sem er sýndur um þessar mundir í íslenskum fjölmiðlum.

Stefán Einar Stefánsson hefur að undanförnu boðið upp á skemmtidagskrá Framsóknarmanna í dægurmálaþætti sínum sem sýndur er á vefsíðu Morgunblaðsins. Týr er ekki frá því að þetta sé skemmtilegasti þátturinn sem er sýndur um þessar mundir í íslenskum fjölmiðlum.

***

Stefán fékk Lilju Alfreðsdóttir ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra í þáttinn á dögunum. Þar sagði Lilja meðal annars að gegndarlaus útgjaldaaukning ríkissjóðs í valdatíð Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hefði ekki haft nein áhrif á þróun verðlags og þenslu i hagkerfinu.

Það eru vissulega mikil tíðindi og nýmæli ef stjórn ríkisfjármála hefur engin áhrif á eftirspurn og verðlag í hagkerfinu og hlakkar Týr mikið til að fá fræðilegar útlistanir Lilju á þessari skoðun sinni en hún er menntaður hagfræðingur eins og kunnugt er.

Þetta sjónarmið Lilju kemur þó ekki alfarið á óvart. Framsóknarmenn hafa lengi stuðst við önnur hagfræðilögmál en aðrir og má í því samhengi rifja upp orð Steingríms Hermannssonar, fyrrum formanns flokksins, um að hefðbundin hagfræðilögmál í formi framboðs og eftirspurnar giltu ekki á Íslandi.

***

Týr hafði ekki síður gaman af heimsókn Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttir, þingmanns Framsóknarflokksins, í þátt Stefáns. Þar ræddi hún rekstur ÁTVR og fyrirkomulag áfengissölu við þá Stefán og Arnar Sigurðsson vínkaupmann.

Þar sagði hún helsta verkefni ríkiseinkasölunnar á áfengi vera að tryggja störf á landsbyggðinni. ÁTVR rekur sem kunnugt er um fimmtíu verslanir um allt land og mátti skilja af orðum þingmannsins að áfengisverslanir ríkisins væru grundvallarforsenda þess að byggð héldist í landinu.

Týr er einn af föstum ritsjtórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill fyrst í blaðinu sem kom út 3. júlí 2024.