Ekki er örgrannt um að þeir ágætu einstaklingar sem sjá um að innheimta sjálfsaflafé hins almenna borgara eigi það til að hafa ákveðin endaskipti á hlutunum.
Engu er líkara en að í hugum þeirra séu launatekjur almennings í eigu þeirra sem reka ríki og sveitarfélög; að það sé fyrir náð, miskunn og örlæti þeirra sem fólk fái að halda eftir rúmum helmingi af launatékka sínum og einungis borga hluta af því sem eftir er í hina ýmsu aðra skatta á borð við virðisaukaskatt, fasteignagjöld, fjármagnstekjuskatt, erfðafjárskatt og þar fram eftir götunum.
Þegar rætt er um ríkisfjármál er þannig gjarnan talað um „tekjutap“ þegar launafólk, oft nefnt „tekjustofnar“, fær að halda stærri hluta af tekjum sínum í eigin ranni. Rætt er um „skattasniðgöngu“ þegar reynt er að lágmarka eignaupptökuna án þess að brjóta þær reglur sem skattheimtumenn setja sjálfir.
Og þeir sýna sko enga miskunn ef þeir telja að fólk fari ekki eftir þeim reglum sem þeir hafa sett um eignarnámið. Sá sem ekki borgar skatta á yfir höfði sér háar sektir og ef hann borgar þær ekki er honum stungið í fangelsi. Ef hann streitist á móti er því valdi beitt sem nauðsynlegt er til að láta hann gjalda gjörða sinna og svipta hann frelsi.
Það er svo sem skiljanlegt að starfsmenn hins opinbera reyni að hámarka það fé sem þeir fá til ráðstöfunar. Ef þeir ættu hins vegar að vera samkvæmir sjálfum sér ættu þeir líklega að leggja sama þunga í að koma í veg fyrir sóun á eigin vinnustað, því slæm meðferð á skattfé hefur sömu áhrif á afkomu þeirrar ágætu rekstrareiningar.