Píratar eru komnir í kosningaham enda hafa þeir gefið út að þeir stefni að því að fá meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn í komandi kosningum.
Grasrót Pírata hefur lengi talað fyrir því að engum stjórnmálamanni sé hollt að sitja lengur á Alþingi en tvö kjörtímabil. Það kemur því hröfnunum ekkert á óvart að Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir, hinn ferðaglaði þingmaður, hafi lýst sig reiðubúin til setu sitt þriðja kjörtímabil á Alþingi. Björn Leví hefur lýst því yfir á Alþingi að takmarkanir ættu að vera á fjölda kjörtímabila þingmanna og nefnt tvö kjörtímabil í þeim efnum. Er þetta einmitt ástæðan fyrir að Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy létu af þingmennsku á sínum tíma.
En eins og nýleg dæmi sýna virðast reglur lýðræðisins aðeins gilda fyrir suma Pírata en aðra ekki. Þá hefur Gísli Rafn Ólafsson lýst því yfir að hann vilji sitja áfram á þingi fyrir flokkinn. Helsta og jafnframt eina afrek Gísla Rafns á þessu kjörtímabili er að hafa beitt sér fyrir að hvítur Monster yrði gerður aðgengilegur í mötuneyti Alþingis. Hrafnarnir munu því fylgjast spenntir með afrekum Gísla á Alþingi á næsta kjörtímabili.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. október.