Ráðherrar ríkisstjórnar þurfa aðstoð – mikla aðstoð.

Ráðherrar ríkisstjórnar þurfa aðstoð – mikla aðstoð.

Þrefalt meiri aðstoð en þeir fengu fyrir tæpum tuttugu árum. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins.

Ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eru tólf og hafa þeir sér til aðstoðar tuttugu og sex aðstoðarmenn. Þetta eru þrefalt fleiri aðstoðarmenn en voru í fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar á árunum 2003-2004. Í raun voru ráðherrar að jafnaði með einn aðstoðarmann hver fram til ársins 2010.

Síðan þá hefur þeim farið ört fjölgandi og hafa þeir aldrei verið fleiri en nú. Samkvæmt lögum um stjórnarráðið er ráð-herrum heimilt að ráða sér tvo aðstoðarmenn að hámarki en ríkisstjórnin getur bætt þremur við ef brýna nauðsyn ber til. Oft var þörf en nú er nauðsyn, enda er hver ráðherra með 2,17 aðstoðarmenn að meðaltali.

***

Týr telur sjálfsagt að þeir sem þurfi hjálp leiti sér aðstoðar. Ekki myndi hann þó klappa fyrir framgöngu ráðherranna og ekki er ástæðan eingöngu að hann er einhentur eftir vinnuslys sem átti sér stað fyrir nokkru. Þessi þróun endurspeglar skeytingarleysi ráðamanna um skattfé almennings.

Þessi fjölgun aðstoðarmanna -bætist við þá miklu fjölgun sem hefur orðið á allra handa sérfræðingum í stjórnarráðinu undanfarinn áratug. Ef miðað er við að laun og launatengd gjöld séu 1,5 milljón á mánuði er kostnaðurinn við að hver ráðherra hafi 2,17 aðstoðarmenn að meðaltali tæplega 160 milljónir á kjörtímabili.

***

Týr á erfitt með að sjá af hverju ráðherrar þurfa svo miklu meiri aðstoð en þeir gerðu fyrir tveimur áratugum. Kannski leiddi ítar-leg þarfagreining í ljós að einn aðstoðarmann þarf til að taka myndina og annan til að henda inn færslunni á Instagram.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 13. september.