Margir kannast sjálfsagt við þá tilfinningu að tíminn virðist stöðugt líða hraðar. Mér er sagt að þetta ágerist með aldri. Áður en við vitum af er aftur komin helgi, fjölskyldumeðlimir eiga aftur afmæli og enn eitt árið gengur í garð. Þegar ég hugsa til baka finnst mér til dæmis ekki langt síðan ég fagnaði upphafi ársins 2019 í faðmi vina og fjölskyldu. Og þó liðin séu fimm ár þá virðist manni þetta ekki ýkja langur tími.

Á þessum fimm árum hefur staðan hins vegar gjörbreyst fyrir þau sem reka fyrirtæki á Íslandi. Samkeppni við hið opinbera hefur harðnað ár frá ári. Sífellt er erfiðara að keppa við ríkið um krafta starfsfólks enda ekkert sem virðist halda aftur af stjórnvöldum við að yfirbjóða einkageirann með margvíslegum hætti. Auk þess að leggja á atvinnustarfsemi ýmsar íþyngjandi kvaðir sem getur verið kostnaðarsamt og tímafrekt að uppfylla.

Frá upphafi árs 2019, á fimm árum sem liðu eins og örskot, hafa laun hjá sveitarfélögum hækkað um 40 prósent og um tæplega 30 prósent hjá ríkinu. Þegar við bætist styttri vinnutími, öflugri lífeyrisvernd og betra skjól fyrir uppsögnum en þekkist á almennum vinnumarkaði hefur verið hrært í baneitraðan samkeppniskokteil.

Mögulega er það til marks um stöðuna að starfsfólki ríkisins hefur fjölgað hraðar en landsmönnum á síðustu árum. Stjórnsýslan stækkaði um 20 prósent á árunum 2011 til 2021 á meðan landsmönnum fjölgaði á sama tíma um 17 prósent. Þá er eftirtektarvert að á meðan ríki Evrópusambandsins verja að meðaltali 11 prósentum af landsframleiðslu sinni í laun opinberra starfsmanna er hlutfallið hér á landi 16 prósent.

Mögulega er það til marks um stöðuna að starfsfólki ríkisins hefur fjölgað hraðar en landsmönnum á síðustu árum.

Ætla mætti að með þessari fjölgun og launahækkunum yrðu störf hins opinbera skilvirkari og betri, en svo virðist þó ekki vera. Þvert á móti hefur skilvirkni hins opinbera ekki verið minni í átta ár samkvæmt úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss sem birt var í sumar og er Ísland neðst Norðurlanda á þann mælikvarða.

Auk þess keppir hið opinbera ekki bara um starfsfólk við fyrirtæki landsins heldur á það í beinni samkeppni á neytendamarkaði. Löngu tímabært er að horfa á það með gagnrýnum hætti hvort rekstri sem opinberir aðilar sinna væri ekki betur borgið á hendi einkaaðila. Undir eru svið á borð við áfengissölu og póstflutninga, auk margvíslegra verkefna í orkugeira og hugbúnaðarþróun og þjónustu. Þennan ójafna leik þekkja margir. Nánari skoðun kann að leiða í ljós að bæði væri hagkvæmara að fela verkefnin einkaaðilum og úrvinnslan jafnvel betri. Umsvif hins opinbera, hátt hlutfall opinberra starfsmanna á vinnumarkaði og opinbert eignarhald á fyrirtækjum, eru liðir sem draga Ísland verulega niður í samkeppnishæfni þjóða samkvæmt niðurstöðu IMD.

Ljóst er að örríki eins og Ísland ber hlutfallslega hærri kostnað en fjölmennari ríki af því að halda uppi stofnanakerfi hins opinbera og því er enn meiri þörf á að horfa hér til hagræðingarmöguleika og fara vel með opinbert fé. Með hækkandi lífaldri eru aukin útgjöld til þjónustu við eldri borgara fyrirsjáanleg. Nú þegar erum við með eina þyngstu skattbyrði meðal OECD ríkja eða 32% af landsframleiðslu – einungis Svíar bera meira. Ef fram heldur sem horfir og vöxtur hins opinbera heldur áfram að blása út munu skattgreiðslur framtíðarinnar ekki standa undir rekstri hins opinbera.

Tíminn er fljótur að líða og það er í okkar höndum að koma breytingum í farveg. Áður en við vitum af eru önnur fimm ár liðin – árið 2029 gengið í garð. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að skapa hagfellda og skilvirka umgjörð um rekstur sjálfstæðra fyrirtækja þannig að lífskjör geti áfram batnað hérlendis og stjórnvöld geti samhliða einbeitt sér að því að nýta fjármuni sína á sem skynsamlegastan hátt til að sinna því þjónustuhlutverki sem það ber ábyrgð á.

Ef fram heldur sem horfir og vöxtur hins opinbera heldur áfram að blása út munu skattgreiðslur framtíðarinnar ekki standa undir rekstri hins opinbera.

Um þessi áramót verður vonandi komin viðspyrna í efnahagslífinu og margvísleg verkefni framundan. Þá er hollt að staldra við og taka stöðuna – leiðrétta þar sem okkur hefur borið af leið. Framleiðnivöxtur er grunnforsenda hagvaxtar og kaupmáttaraukningar. Ef við viljum vaxa til velsældar sem þjóð, þarf að nýta krafta einkaframtaksins til fulls. Það er í okkar höndum að ákveða hver staðan verður eftir fimm ár og þau munu einnig líða sem örskot.

IMD viðskiptaháskólinn í Sviss mælir samkeppnishæfni 64 þjóða út frá fjórum meginþáttum. Þeir eru efnahagsleg frammistaða, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífsins og samfélagslegir innviðir. Í ár fellur Ísland um flest sæti þegar kemur að skilvirkni hins opinbera eða úr sæti 5 niður í 19. sæti.

Höfundur er forstjóri Festi.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.