Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, er ekki óskeikull. Það eru bara páfinn í Róm og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sem eiga tilkall til þeirrar nafnbótar.

Eitt sinn var Skúli formaður Dómarafélags Íslands. Þá komu fram upplýsingar um að dómarar hefðu dæmt í málefnum banka þar sem þeir voru sjálfir hluthafar. Skúli taldi fráleitt að hlutabréfaeignin hefði með nokkrum hætti áhrif á hæfi dómaranna í þessum málum.

HHH
Gekk hann svo langt á aðalfundi Dómarafélagsins í nóvember 2017 að fullyrða að umfjöllun fjölmiðla væri þaulskipulögð aðför. Á fundinum lét hann þessi orð falla: „Öllum mátti vera ljóst að verið var að beita dóm­ara, íslenska dóms­kerf­ið, þrýst­ingi og það með sam­stilltum aðgerð­u­m.“ Hann sagði enn fremur að dómarar hefðu þurft að sæta neikvæðri og ómálefnalegri umræðu í fjölmiðlum og nefndi ofurlaunahækkanir þeirra árið 2015 sem dæmi um það.
H H H

Tý finnast þetta nokkuð merkilegar fullyrðingar frá manni sem komst að þeirri niðurstöðu að fráfarandi fjármálaráðherra hefði gerst sekur um vanhæfi þar sem faðir hans var einn þeirra ríflega 200 hundrað fagfjárfesta sem tóku þátt í útboðinu. Með áliti sínu var umboðsmaður að taka undir málflutning þingmanna á borð við Björn Leví Gunnarsson sem hafa klifað á því að Bjarni Benediktsson hafi selt pabba sínum Íslandsbanka persónulega. Einhverjir kunna að telja slíkan málflutning „neikvæðan og ómálefnalegan“ svo vitnað sé til orða Skúla.

H H H
Skemmst er frá því að segja að Mannréttindadómstóll Evrópu var ósammála Skúla um hæfi dómara til að taka fyrir mál í fyrirtækjum sem þeir áttu sjálfir hlutabréf í. Sá úrskurður var íslenska ríkinu dýrkeyptur.

Týr er einn föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom 18. október 2023.