Það kenndi ýmissa grasa þegar oddvitar ríkisstjórnarflokkanna kynntu þingmálaskrána á blaðamannafundi í vikubyrjun.
Hrafnarnir fagna sérstaklega að Inga Sæland félags- og húsnæðisráðherra ætli að liðka fyrir hunda- og kattahaldi í fjölbýlishúsum. Þá lýsti Inga því yfir á fundinum að hún hygðist skipa sérstakan hagsmunafulltrúa eldra fólks sem fær það aðkallandi hlutverk að „kortleggja félagslega stöðu og réttindi“ þeirra sem eru komnir af léttasta skeiðinu.
Hrafnarnir fagna þessu og telja einsýnt að rétt sé að ráða Ragnar Önundarson viðskiptafræðing í starfið. Það væri eðlilegt framhald af skrifum Ragnars í fjölmiðla og athugasemdakerfi þeirra og gæti hann gegnt starfinu þar til að einhver af sonum Ingu nái hæfilegum aldri til að taka við keflinu.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. febrúar 2025.