Ég starfaði sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu um árabil og varð þess var að kunnátta á samkeppnisrétti var oft á tíðum takmörkuð. Í þessari grein  verður tæpt á einu slíku atriði en það eru upplýsingaskipti á markaði. Það er rétt að taka það fram að hér er aðeins um stutta blaðagrein að ræða sem er ætlað að gefa meginlínur.

Upplýsingaskipti eru einn angi svokallaðra samstilltra aðgerða í samkeppnisrétti. Almennt er talið að upplýsingaskipti á milli fyrirtækja séu varhugaverð. Þau geta verið hluti af víðtæku samráði eða falið í sér ein og sér brot á 10. gr. samkeppnislaga. Ávallt þarf þó að fara fram heildarmat, sem að grunni til felur í sér að líta þarf til þess hvort upplýsingaskiptin séu til þess fallin að minnka óvissu á markaðnum á kostnað samkeppninnar.

Íslenskur samkeppnisréttur tekur mið af hinum evrópska samkeppnisrétti. Fyrsta málið sem snérist einvörðungu um upplýsingaskipti á sviði hins evrópska samkeppnisrétttar var mál United Kingdom Agricultural Tractor í Bretlandi en þar var um að ræða nákvæm upplýsingaskipti á milli stærstu dráttarvélaframleiðanda í Bretlandi og laut að sölu og markaðshlutdeild. Þrátt fyrir að upplýsingaskiptin vörðuðu ekki beinlínis verð samkeppnisaðilanna og væru  ekki heldur talin renna stoðum undir samráð var engu að síður talið um brot væri að ræða á samkeppnislögum. Ástæða þessarar niðurstöðu dómsins var sú að regluleg upplýsingaskipti á tilteknum markaði væru til þess fallin að minnka óvissu og veikja samkeppni á þessum samþjappaða markaði sem var til skoðunar.

Það sem talið var renna stoðum undir brotið var að upplýsingaskiptin áttu sér aðeins stað á milli stærstu framleiðendanna og þau voru talin gera framleiðendum kleift að fylgjast með sölu hvers annars á markaðnum. Við mat dómsins kom fram að meta þyrfti hvort upplýsingaskiptin væru til þess fallin að minnka óvissu á markaðnum. Vísaði dómstóllinn til þess að ástæða þess að meta þyrfti óvissuna væri vegna meginreglu evrópsk samkeppnisréttar um að fyrirtæki skuli taka sjálfstæðar ákvarðanir en fyrirtæki taka ekki sjálfstæðar ákvarðanir ef þau vita hver sé staða keppinautanna og markaðsstefna þeirra er.

Í hverju máli sem varðar mat á því hvort upplýsingaskipti feli í sér brot á samkeppnislögum fer fram heildarmat á fjölmörgum þáttum og því er ekki hægt að gagnálykta frá einstökum dæmum. Þó eru nokkrir þættir sem hafa verið taldir til lykilþátta við matið. Sá fyrsti er gerð markaðar. Við á því hvort upplýsingaskipti séu ólögmæt er horft til gerð þess markaðar sem er til skoðunar en það skiptir máli varðandi það hvort upplýsingaskipti séu líkleg til að hafa áhrif á markaðinn eður ei. Gerður hefur verið greinarmunur á milli viðkvæmnra, nýlegra og einstaklingsbundinna upplýsinga á samþjöppuðum markaði með einsleitar vörur og skipti sömu upplýsinga á markaði, sem er dreifaðir eða fjölbreyttari. Það er vegna þess að á gagnsæjum fákeppnismarkaði einsleitra vara verða keppinautar fyrr varir við allar aðgerðir. Því fjölbreyttari sem framleiðsla er og því dreifðari sem markaður er því erfiðara verður fyrir fyrirtæki að ná fram samráði, hvort sem það sé beint eða óbeint. Í Eudim málinu svokallaða taldi framkvæmdastjórn ESB t.a.m. að upplýsingaskipti á milli heildsala í pípulagningavörum hefði ekki haft áhrif á samkeppni. Upplýsingarnar vörðuðu kaup og sölu keppinauta og lá fyrir að sum gögnin voru trúnaðargögn. Hins vegar þar sem kaupendastyrkur  var mikill á markaðnum og hann var ekki fákeppnismarkaður var ekki talið upplýsingaskiptin hefðu merkjanleg áhrif. Athuga ber þó að ef sýnt er fram á ásetning til samráðs, þá nægir það eitt og sér burtséð frá mati á upplýsingunum. Annar þátturinn er tegund upplýsinga. Almennar heildarupplýsingar eru almennt taldar meinlausar svo lengi sem það séu ekki einhver önnur atriði sem styðja að upplýsingaskiptin skaði samkeppni.

Trúnaðarupplýsingar eru taldar sérstaklega varhugaverðar og telst verð að jafnaði til þeirra, einnig áætluð afkastaaukning, fjárfestingaáætlanir, framleiðslu- og sölugögn, afkastageta, nýtingargeta, framtíðarspár, pantanir og afhending o.fl. Aldur upplýsinga skiptir einnig máli og hvort þær séu almennar, tíðni þeirra og hvort þær séu opinberar eður ei. Þá hefur Evrópudómstóllinn talið að þótt upplýsingar sem fari á milli aðila séu aðgengilegar annars staðar frá þá geti þær leitt til ólögmætrar samræmingar og skapað samkeppnishamlandi andrúmsloft á milli fyrirtækjanna. Þriðji þátturinn er á milli hverra upplýsingaskiptin eru. Almennt er goldið varhug á milli upplýsingaskipta sem eru einungis á milli keppinauta. Í Cobelpa-málinu taldi framkvæmdastjórnin að ef upplýsingarnar væru huldar neytendum væri líklega um brot að ræða. Með upplýsingaskiptum getur þó einnig verið átt við umfjöllun á opinberum vettvangi. T.d. ef fyrirsvarsmaður myndi gefa nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaða verðhækkun eða jafnvel lýsa yfir vilja til verðhækkana. Fjórði lykilþátturinn er tímasetning upplýsinga. Því eldri sem þær eru því ónothæfari eru þær til samhæfingar, þar sem þær gefa þar með að jafnaði verri mynd af markaðnum eins og hann er og þar með eru þær ólíklegri til að minnka óvissuna. Hins vegar er það ekki einhlýtt þar sem nákvæmar sölutölur úr fortíðinni gætu gefið góða mynd af framtíðarhorfum, sérstaklega þegar um fákeppnismarkað er að ræða.

Það er rétt að taka fram að það er ekki skilyrði að fyrirtæki skiptist á samkeppnishamlandi upplýsingum heldur getur móttaka þeirra falið í sér brot, sbr. m.a. ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 13/2001 (Grænmetismálið). Með móttöku upplýsinga er gert ráð fyrir að fyrirtækið hafi nýtt sér upplýsingarnar, hvort sem svo sé eður ei.

Að samandregnu er ljóst að forráðamenn og aðrir starfsmenn fyrirtækja þurfa  að hugsa sig tvisvar um áður en þau láta af hendi upplýsingar til keppninauta eða taka við slíkum upplýsingum og má segja að þau þurfi að spyrja sig "Er ég að minnka óvissu á markaðnum með þessari upplýsingagjöf/móttöku með óeðlilegum hætti". Ef einhver vafi er fyrir hendi er rétt að leita sér frekari ráða því brot á samkeppnislögum eru dýrkeypt, bæði fjárhagslega sem og álitslega.

Höfundur er héraðsdómslögmaður.