Blikur eru á lofti yfir efnahag meginlands Evrópu. Merki eru um að samdrátturinn á evrusvæðinu sé að aukast og það setur Evrópska seðlabankann milli steins og sleggju. Verðbólguþróunin kallar á frekari vaxtahækkanir á sama tíma og efnahagslífið stendur vart undir hærra vaxtastigi

Staðan í Evrópu skýrist ekki af hefðbundnum hagsveiflum. Um djúpstæðan vanda er að ræða sem verður ekki leystur nema með uppstokkun. Frá og með árinu 2008 hafa hagkerfi evrusvæðisins vaxið lítið og ekkert bendir til þess að það muni breytast næsta áratuginn.

Þannig hefur evrusvæðið aðeins vaxið um 6% á síðustu fimmtán árum í dollurum talið. Bandaríkin hafa á sama tíma vaxið um 82%. Hagkerfi evrusvæðisins og Bandaríkjanna voru svipuð að stærð árið 2008 en nú er það bandaríska helmingi stærra. Lífskjaragjáin sem aðskilur Evrópu og Norður-Ameríku er að víkka hratt.

Það er kyrrabeltið sem hvílir yfir stærstu hagkerfum álfunnar sem heldur hagvexti niðri. Sá litli vöxtur sem hefur verið í hagkerfum Evrópu hefur fyrst og fremst verið dreginn áfram að minni hagkerfum í Mið-Evrópu auk Spánar sem nýtur góðs af miklum vexti ferðaþjónustunnar þá sem nú. Vöxtur hefur verið lítill í Þýskalandi og hagkerfi Frakklands og Ítalíu hafa beinlínis dregist saman.

Í nýlegri umfjöllun bandaríska blaðsins The Wall Street Journal er bent á að hækkandi meðalaldur íbúa ásamt tilhneigingu þeirra til að kjósa frítíma fram yfir vinnu og starfsöryggi haldi hagvexti á evrusvæðinu niðri. Evrópsk stjórnvöld hafa lengi getað reitt sig á hagvöxt gegnum útflutningsatvinnuvegi en nú er svo komið að eftirspurn á lykilmörkuðum á borð við Kína hefur dregist mikið saman. Eftirspurn á heimamarkaði hríðfellur enda eru neysluútgjöld á evrusvæðinu í frjálsu falli.

Fyrr á tímum gátu Evrópumenn reitt sig á Evrópusamrunann sem tæki til þess að vinna bug á efnahagserfiðleikum. Evrópsku einingarlögin og tilkoma hins sameiginlega markaðar var í aðra röndina viðbragð við verðbólgukreppunni sem stóð yfir á áttunda áratugnum. Þetta ásamt frekari samruna leysti vöxt úr læðingi.

Í dag blasir hins vegar að ekki verður lengra gengið í Evrópusamrunanum og þar er engra lausna að finna á núverandi efnahagsvanda. Í raun og veru er báknið og hin pólitíska menning sem einkennir samrunann að hluta rót vanda Evrópu. Flókið og íþyngjandi regluverk eru ær og kýr Evrópusambandsins og það eykur kostnað fyrirtækja og við bætast háir skattar og viðvarandi krafa um enn styttri vinnutíma.

Efnahagsvandinn sem Evrópumenn standa frammi fyrir er djúpstæður og afleiðingar hans verða að óbreyttu ískyggilegar. Á sama tíma glíma ríkin á meginlandinu við orkukreppu í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Þar eru menn að súpa seyðið af nánast gölnum ákvörðunum um að gera einstaka ríki alfarið háð Rússum um orkuöflun.

Vítin eru til að varast þau. Svo virðist sem evrópskir stjórnmálamenn hafi að einhverju leyti misst sjónar af þeirri staðreynd að framleiðni og verðmætasköpun stendur undir lífskjörum borgaranna. Vísbendingar eru um að einhverjir íslenskir stjórnmálamenn hafi fallið í þá gryfju og fleiri fylgt í kjölfarið. Nauðsynlegt er að draga lærdóm af stöðunni í Evrópu og forðast að endurtaka efnahagsmistökin sem gerð hafa verið á meginlandinu.Eitt sinn var Óttaman-veldinu lýst sem veika manninum í Evrópu. Enda hrundi það stuttu síðar. Núna eru sjúklingarnir víða og ljóst að ekki verður haldið áfram á sömu braut án þess að það dragi til meiri háttar
tíðinda