Söngkonan og leikkonan Cher hefur sett hús sitt við Malibu-strönd í Kaliforníu til sölu á 85 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 12,2 milljörðum króna. Húsið er 1226 fermetrar að stærð og stendur á tæpla 7 þúsund fermetra lóð.
Samkvæmt Wall Street Journal keypti Cher fasteignina á 2,95 milljónir dala árið 1989, en byggingu hússins lauk árið 1999. Húsið er hannað í ítölskum endurreisnarstíl og er hönnunin innblásin af Feneyjum.
Í húsinu má meðal annars finna sjö svefnherbergi, líkamsrækt, hárkolluherbergi með nærri 100 hárkollum og hugleiðsluherbergi. Á lóðinni má jafnframt finna gestahús, útisundlaug og tennisvöll. Þá skartar hvert einasta herbergi hússins útsýni yfir Kyrrahafið.
Malibu er heimili ríka og fræga fólksins í Bandaríkjunum og hafa flestar af stærstu stjörnum Hollywood átt þar heimili á einhverjum tímapunkti.
Nýlega keypti bandaríski fjölmiðlamógullinn Byron Allen hús í Malibu á 100 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 14,5 milljörðum króna. Michael Eisner, fyrrum forstjóri Disney, á eign í Malibu sem hann setti nýlega á sölu fyrir 225 milljónir dala. Þá seldi Pamela Anderson hús sitt í Malibu á 11,8 milljónir dala í fyrra.