Óhætt er að fullyrða að borðspil hafi náð að létta lund margra á tímum heimavinnu og viðburðabanns. Einhverjir fengu vafalaust nóg af þeim undanfarna mánuði meðan aðrir smituðust af bakteríunni og vilja prófa ný spil. Slíkt er tilvalið í pakkann enda ekki aðeins verið að gefa spil heldur einnig samverustund. Viðskiptablaðið tók saman nokkra möguleika sem henta jafnt byrjendum sem lengra komnum.
Secret Hitler
Leikmönnum er skipt í tvö lið, frjálslynda og fasista. Markmið fyrrnefnda hópsins er að uppræta þá síðarnefndu en á meðan reyna fasistar að komast til valda. Spil sem hentar mjög málglöðum og þeim sem hafa mikinn sannfæringarkraft. Svo er líka svo gaman að kalla vini og fjölskyldumeðlimi „helvítis fasista“. Önnur spil í svipuðum dúr eru The Resistance og Avalon.
Fjöldi: 5-10 Aldur: 14 ára og eldri Spilunartími: 45 mínútur Flækjustig: Einfalt
Pandemic: Legacy
Svokölluð Legacy spil hafa undanfarið notið aukinna vinsælda en þau eru þannig úr garði gerð að ákvarðanir teknar í spili í dag hafa áhrif þegar spilið er spilað næst. Best er að velja sér sömu einstaklinga til að spila með sér í hvert skipti. Margir hafa reynt að komast með tærnar þar sem Pandemic Legacy hefur hælana en engum hefur tekist það.
Fjöldi : 2-4 Aldur: 13 ára og eldri Spilunartími: 60 mínútur Flækjustig: Miðlungs
Rhino Hero
Einfalt og stutt spil sem hentar allri fjölskyldunni. Keppendur skiptast á að hækka afar óstöðugan turn og keppast um að færa sinn leikmann sem hæst. Verði einhver fyrir því óláni að fella turninn lýkur leiknum og sá hinn sami tapar. Þótt spilið sé hannað með börn í huga geta fullorðin auðveldlega skemmt sér við að spila það og öskra hvert á annað.
Fjöldi: 2-5 Aldur: 4 ára og eldri Spilunartími: 5-15 mínútur Flækjustig: Afar einfalt
Brass: Birmingham
Leikmenn bregða sér í hlutverk frumkvöðla í Birmingham á tímum iðnbyltingarinnar. Markmið spilsins er að efnast og klekkja á öðrum með því meðal annars að reisa byggingar, tengja saman borgir og leggjast í framkvæmdir. Álitið af borðspilaáhugafólki eitt af bestu spilum sem gerð hafa verið enn sem komið er.
Fjöldi: 2-4 Aldur: 14 ára og eldri Spilunartími: 60-120 mínútur Flækjustig: Mjög flókið
Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbók, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .