Sunneva Ása Weisshappel er myndlistamaður sem hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín en hún vinnur þvert á miðla og fjallar um femínisma, vald, ofbeldi og hið kvenlega í listsköpun sinni. Auk myndlistarinnar starfar hún sem búningahönnuður, leikmyndahönnuður og leikstjóri.
Um þessar mundir er Sunneva meðal annars að ljúka sameiginlegu meistaranámi í myndlist við Goldsmith háskólann í London og Listaháskóla Íslands, klára matreiðsluþætti sem hún leikstýrir, ásamt því að undirbúa sýningu fyrir Market, listamessu í Stokkhólmi.
Hluti af starfi listamannsins er að koma sér á framfæri og að mati Sunnevu er það erfitt en nauðsynlegt atriði til þess að ná árangri.
„Mér finnst athygli oft erfið, mér finnst gaman að takast á hugmyndafræðilega um list en mér finnst ofoðslega leiðinlegt að tala um mig og mín persónulegu mál. Mér finnst list bara vera spegill þess sem horfir og mér leiðist athyglin á persónuleg mál listamannsins. Að sama skapi þarf að leika leikinn líka, það er engin vinna, bara skemmtileg.“
Hún segir listamanninn þurfa að sætta sig við að þetta sé hluti starfsins en bendir á að markaðssetning hafi alltaf verið tabú í myndlistarsenunni.
„Mér finnst það furðulegt að fólki sé refsað fyrir að reyna að framfleyta sér. Ég set stórt spurningarmerki við senuna almennt varðandi þetta, þó ég sé ekkert endilega með svörin sjálf. En þegar ég var ung og maður seldi verk þá lá við að litið væri á mann sem talsmann Satans, þetta átti ekki að fjalla um peninga heldur eitthvað miklu æðra.
Maður þarf að sætta sig við það að maður þarf peninga til að lifa og maður þarf peninga til þess að búa til list og geta starfað. Og ég get ekki réttlætt það með því að vera á spenanum hjá ríkinu, ég er bara ekki til í það. Maður verður að taka einhverja ábyrgð.“
Viðtalið við Sunnevu Ásu er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.