Það er svo sem ekkert að því að sitja hérna heima á Íslandi í byrjun febrúar í skammdegi og kulda. Við getum alltaf gert okkur dagamun og fengið okkur sviðakjamma eða borðað bollur með rjóma.

En hvernig væri nú að ímynda sér í smástund hvernig það væri að svamla um í sundlaug uppi á þaki á fínum hótelbar í Los Angeles? Væri ekki huggulegt að skoða aðeins úrvalið af flottustu þakbörunum og lífga aðeins upp á mánudaginn? The New Zealand Herald tók saman lista yfir fimm flottustu þakbarina í Los Angeles.

1. High í Hótel Erwin , Venice Beach:

High barinn er á sjöttu hæð hótel Erwin og stendur við ströndina. Þar er hægt er að sitja í djúpum stólum undir hiturum og horfa á sólarlagið.

2. Suite 700 á Hotel Shangri La , Santa Monica.

Hinum megin við götuna við Santa Monica ströndina stendur Hotel Shangri La. Þar er stórkostlegur bar á efstu hæðinni og líka art deco húsgögn fyrir þá sem elska slíkt.

3. Zengo , Santa Monica Place

Á þaki verslunarmiðstöðvar er barinn Zengo. Þar er ekki bara boðið upp á drykki heldur einnig asíska/latneska matargerð.

4. London , Vestur Hollywood.

Hér er hægt að hanga allan daginn. Á þessum bar/veitingastað er hægt að gæða sér á allskyns góðgæti, svamla um í sundlauginni og hvíla sig síðan undir pálmatrjánum. Allt á þakinu auðvitað.

5. Andaz , Vestur Hollywood.

Því miður þá er þessi bar aðeins opinn fyrir hótelgesti. En þá er líka bara hægt að tékka sig inn og fara upp á þak.