Menntakerfi landsins kennir okkur ýmislegt, bæði gagnlega hluti og annað sem nýtist okkur ekki jafn vel. Fjármálalæsi er einn þeirra þátta sem fær ekki nægilegt pláss í námskránni að mínu mati, sé tekið mið af mikilvægi þess.
Í bókinni Fyrstu skref í fjármálum eftir Gunnar Baldvinsson er komið inn á nokkrur grunnatriði sem er gott að vita fyrir eigin fjárhag. Líkt og með annan lærdóm þá þarf að viðhalda vitneskjunni svo hún tapist ekki og því er lesturinn góður fyrir unga sem aldna.
- Öllum vinnandi einstaklingum á aldrinum 16 – 70 ára á Íslandi ber skylda að greiða 4% af laununum sínum í lífeyrissjóð. Á móti greiða svo launagreiðendur 11,5% í sjóðinn.
- Þegar greitt er í lífeyrissjóð eru einstaklingar að leggja pening til hliðar og mynda þannig sinn eigin sjóð sem þeir fá síðan greitt úr þegar þeir fara á eftirlaun. Lífeyrissjóðir greiða einnig einstaklingum úr sjóðnum lendi þeir í því óláni verða óvinnufærir eða við andlát sjóðfélaga.
- Upphæð lífeyris ræðst af starfsævi og tekjum hvers einstaklings. Því hærri upphæð sem er borguð í sjóðinn því hærri verða eftirlaunin.
- Fjöldi lífeyrissjóða á Íslandi er um 20 talsins. Einstaklingum er frjálst að velja sinn lífeyrissjóð. Hins vegar ef engin ósk berst um lífeyrissjóð til launagreiðanda eru einstaklingar settir í þann lífeyrissjóð sem tengist þeirra stéttafélagi.