Nú þegar það fer að líða að jólum og heimsfaraldurinn virðist engan endi ætla að taka, er gott að hafa nóg að gera heima fyrir til að stytta sér stundir. Tölvuleikir eru ekki aðeins frábær leið til þess að brjóta upp Netflix-maraþonið, heldur geta þeir einnig verið vettvangur til að spjalla við og skemmta sér með vinunum óháð staðsetningu og sóttvörnum. Hér eru nokkrir af vinsælustu leikjum ársins, fullkomnir í jólapakkann, hvort heldur sem er handa öðrum eða sjálfum sér.

Deathloop
Deathloop er fyrstu persónu skotleikur sem hefur verið líkt við hina frægu kvikmynd Groundhog Day, en Edge of Tomorrow væri nærtækari samanburður, með smá dass af Hitman. Spilarinn endurtekur sama daginn í sífellu þar til honum tekst að ráða átta „skotmörk“ af dögum, sem krefst ekki bara leikni með skotvopn heldur ítarlegrar rannsóknar á lífi þeirra og aðstæðum. Sögusviðið er heldur kaldranaleg eyja full af menningu 7. áratugar síðustu aldar. Deathloop er frumleg útfærsla sígildrar leikjategundar byggð á áhugaverðri hugmynd, en umfram það tekst honum að feta vandrataðan milliveg erfiðleika án pirrings, sem gerir hann skemmtilegan að spila, ekki bara að komast í gegnum.

Útgáfudagur: 14. september 2021
Hægt að spila á: PC, PS5

Forza Horizon 5
Forza-serían eru kappakstursleikir sem innihalda bíla sem innleiddir eru af svo mikilli nákvæmni að þeir eiga á margan hátt meira skylt við herma. Horizon 5 gerist í Mexíkó, og kortið er það stærsta og fjölbreyttasta hingað til. Útlit leiksins er einnig stórbætt, sér í lagi lýsingin, dekkjareykur og ryk. Að sjálfsögðu má svo einnig finna aragrúa nýrra bíla og íhluti og felgur í tonnatali, og fikta endalaust í hverju smáatriði bílsins. Á sama tíma tekst leiknum þó að vera mjög aðgengilegur og auðspilanlegur fyrir þá sem ekki hafa brennandi áhuga á bílum.

Útgáfudagur: 5. nóvember 2021
Hægt að spila á: PC, Xbox One, Xbox X/S

Age of Empires 4
Herkænskuleikjaserían Age of Empires rekur ættir sínar aftur til síðustu aldar, og yfir áratugur er síðan síðasti leikur kom út. Leikurinn gerist á miðöldum, og fetar þar í fótspor annars leiks seríunnar, sem var svo vinsæll að hann er mikið spilaður enn þann dag í dag. Útgefandinn, Relic, tók einnig skref aftur á bak frá auknu flækjustigi síðasta leiks. Hægt er að spila sem átta gerðir af þjóðfélögum: England, Frakkland, Kína, Rússar, Mongólar, Delhi Soldánsdæmið, hið Heilaga rómverska keisaradæmi og Abbassídaættveldið, og boðið er upp á fjórar herferðir: Landvinninga Normana í Englandi, Hundrað ára stríðið milli Englands og Frakklands, útbreiðslu Mongólska heimsveldisins, og uppgang hertogadæmis Moskvu meðal Rússa. Nánast öruggt er svo að bætt verður við báða flokka með aukapökkum þegar fram líða stundir.

Útgáfudagur: 28. október 2021
Hægt að spila á: PC, Xbox cloud gaming

It takes two
Hjónaband söguhetjanna May og Cody er komið á ystu nöf þegar dóttir þeirra festir þau óafvitandi í líkama tveggja dúkka sem hún lét sem væru þau og reyndi að láta sættast. Leikurinn er í aðra röndina beinlínis hugsaður sem æfing fyrir sambönd sem eiga í erfiðleikum, og er tvíspilunarleikur sem krefst mikillar samvinnu spilaranna. Umhverfið sem hjónin þurfa að glíma við er ekki aðeins ógnarstórt, heldur koma þau víða við, meðal annars úti í geim, þrátt fyrir að meginmarkmið leiksins sé að komast úr skúrnum í garðinum inn í hús. Allskyns furðuhlutir verða á vegi þeirra, og jafnvel hversdagslegu hlutirnir sem þau þurfa að eiga við eru glæddir lífi og persónugerðir.

Útgáfudagur: 26. mars 2021
Hægt að spila á: PC, PS4, PS5, Xbox One, Xbox X/S

Fjallað er um málið í Jólagjafahandbók Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .