Tekjuhæsta kvikmynd ársins í kvikmyndahúsum á Íslandi var, eins og annars staðar í heiminum, kvikmyndin Barbie en sú mynd halaði inn yfir 134 milljónir króna í miðasölu. Hátt í 80 þúsund bíógestir lögðu leið sína í kvikmyndahús landsins til að sjá þessa mynd sem leikstýrð var af Gretu Gerwig.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) en í öðru sæti á þeim lista var íslenska kvikmyndin Villibráð eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur. Sú mynd þénaði tæpar 115 milljónir króna og fóru 56 þúsund Íslendingar á hana.
Ásamt Villibráð rötuðu tvær aðrar íslenskar kvikmyndir inn á listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndir ársins en 11 íslenskar myndir voru sýndar í kvikmyndahúsum á árinu. Kvikmyndin Kuldi, sem byggð er á metsölubók Yrsu Sigurðardóttur og var leikstýrð af Erlingi Óttari Thoroddssyni, var í 5. sæti á aðsóknarlistanum. Rétt á eftir henni var kvikmyndin Napóleonsskjölin sem þénaði tæpar 60 milljónir króna.
Í þriðja sæti á listanum var stórmynd Christopher Nolan, Oppenheimer, sem segir frá vísindamanninum J. Robert Oppenheimer sem kom að því að hanna atómsprengjuna. Sú mynd þénaði yfir 76 milljónir króna hérlendis ásamt því að taka á móti rúmlega 40 þúsund manns.
Samtals nam miðasala í íslenskum kvikmyndahúsum 1.696.182.525 krónum en lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2023 má sjá hér að neðan.