Nú þegar skammdegið er skollið á af fullum þunga finnst mörgum fátt huggulegra en að setjast fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna og stytta sér stundir með góðum tölvuleik, hvort sem það er einn, með félögunum í sófanum, eða með og á móti öðrum spilurum á netinu. Nýjasta kynslóð bæði Xbox og Playstation leikjatölvanna fór í sölu nú fyrir stuttu, og því er ekki úr vegi að reifa nokkra helstu leikina sem komið hafa, og eiga eftir að koma út, á árinu.

Cyberpunk 2077
Cyberpunk 2077 er fyrstu-persónu hasar-hlutverkaleikur (e. action RPG) byggður á Cyberpunk borðspilaheiminum. Í honum skilja leiðir við mannkynssöguna árið 1990, öll stórveldi heimsins falla og risafyrirtæki ráða nú ríkjum í heimi sem er mun óvægnari og harðneskjulegri en við eigum að venjast. Sögusviðið er hin 5 milljóna manna Næturborg (e. Night City). Leiksins er beðið með nokkurri eftirvæntingu, en hann hefur verið í þróun frá 2016 og útgáfu hans hefur verið frestað í þrígang á þessu ári.

Útgáfudagur: 10. desember 2020
Hægt að spila á: Windows, PS4, PS5, Stadia, Xbox One og Xbox X/S

Doom Eternal


Yfir 10 milljónir eintaka leikja úr Doom-leikjaseríunni hafa verið seldar frá því að hinn upphaflegi Doom kom út árið 1993. Sá var brautryðjandi á margan hátt, meðal annars sem fyrstupersónu skotleikur, þrívíður leikur og fjölspilunarleikur. Eftir það hafa aðeins nokkrir stórir framhaldsleikir verið gefnir út, sá síðasti árið 2016 eftir langa bið, en sá hét einfaldlega Doom. Doom Eternal er framhald hans og fær nokkuð góða dóma. Hann er sannur uppruna sínum – spilunin felst í að berjast við fjölda allskyns djöfla samtímis á ofsafenginn og ofurofbeldisfullan hátt – en á sama tíma tekst honum að flækja og dýpka leiktegund sem flestir eru eflaust orðnir vel kunnugir, með áherslu á stýringu takmarkaðra auðlinda og bardaga sem krefjast óhefðbundinna lausna, og þvinga þannig spilarann út úr þægindaramma sem hann hefur komið sér upp í gegnum árin, eða áratugina, við spilun svipaðra leikja.

Útgáfudagur: 20. mars 2020
Hægt að spila á: Windows, PS4, PS5, Stadia, Switch, Xbox One, Xbox X/S

Half-Life: Alyx


Fyrir þá sem hafa lagt út fyrir sýndarveruleikagleraugum en kannski lítið getað notað þau er þriðji leikurinn í hinni goðsagnakenndu Half-Life seríu (sem Valve vildi þó ekki kalla Half-Life 3) hugsanlega málið. Leikmaðurinn spilar sem Alyx Vance, bandamaður aðalsöguhetjunnar í fyrstu tveimur leikjunum, Gordons Freeman, og sagan gerist á milli hinna tveggja. Leikurinn hefur fengið góða dóma á öllum sviðum, og meðal annars verið lýst sem þeim fyrsta sem virkilega komi sýndarveruleika á kortið.

Útgáfudagur: 23. mars 2020
Hægt að spila á: Windows, Linux

Ghost of Tsushima


Mongólar gera innrás í Japan árið 1274 þegar þeir ráðast á eyjuna Tsushima. Samúræjinn Jin Sakai er meðal þeirra sem verjast þeim. Leikurinn hefur meðal annars fengið sérstakt lof fyrir hærri erfiðleikastigin, sem ólíkt flestum leikjum þar sem óvinirnir verða einfaldlega tordrepanlegri, fer í þveröfuga átt. Efsta stigið heitir banvænt, og í því eru bardagar einfaldlega sem raunverulegastir: aðeins þarf 1-2 skurði með flugbeittu sverði til að leggja flesta óvini að velli, en það gildir í báðar áttir. Vofa Tsushima hefur auk þess verið lofuð fyrir frábært útlit, sem ýtir undir innlifun spilarans, en opinn leikheimurinn og þau verkefni sem í honum má finna hlutu blendnari dóma.

Útgáfudagur: 17. júlí 2020
Hægt að spila á: Playstation 4, Playstation 5

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .