Þjóðleikhúsið frumsýndi nýtt íslenskt verk eftir Jón Gnarr í Hádegisleikhúsinu í gær þar sem Gói og Pálmi Gests fóru á kostum.
Verkið fjallar um tvo menn sem hafa unnið svo lengi saman að þeir gerþekkja hvor annan en hafa samt verk að vinna.
Fjögur ný íslensk verk voru valin úr innsendu efni í handritasamkeppni sem Þjóðleikhúsið hélt í samstarfi við RÚV. Verkið eftir Jón Gnarr er þriðja verkið sem tekið er til sýninga í Hádegisleikhúsinu. Auk Jóns voru verk eftir Bjarna Jónsson, Hildi Selmu Sigurbjörnsdóttur og Sólveigu Eir Stewart valin til sýninga.
Hádegisleikhús Þjóðleikhússins tók til starfa í endurnýjuðum Leikhúskjallara en þar sjá gestir sýningu á nýju íslensku leikriti um leið og þeir snæða léttan hádegisverð.
Í tilkynningu segir að húsið opni 11:45 og er matur borinn fram frá 12:00-12:15. Leiksýningin hefst svo klukkan 12:20 og tekur tæpan hálftíma.