Í tímaritinu Áramótum, sem kom út í gærmorgun, 29. desember, er umfjöllun um 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan er hluti umfjöllunarinnar.

Franska félagið Lille keypti Hákon Arnar Haraldsson frá FC Kaupmannahöfn síðasta sumar. Kaupverðið var talið vera 17 milljónir evra, sem gerir Hákon að dýrasta leikmanni sem hefur verið seldur frá danska félaginu.

Hákon Arnar er tvítugur Skagamaður sem gekk til liðs við FCK frá ÍA fyrir fjórum árum síðan. Hann gerði 5 ára samning við franska félagið eða til 2028. Hann fær um 250 milljónir í laun hjá franska félaginu og er sá leikmaður sem hækkar langmest í launum frá því í fyrra.

ÍA er talið hafa haldið 15 til 20% af endursölurétti á leikmanninum og fær því væna upphæð í bankann fyrir þessi félagaskipti.

Arnór bættist í enska boltann og Albert orðaður við stórlið

Margir íslensku atvinnumannanna skiptu um félag á árinu. Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson gekk í sumar til liðs við Blackburn í ensku Championshipdeildinni. Hann skrifaði undir eins árs samning við félagið. Nú á dögunum framlengdi Arnór síðan við liðið til ársins 2025.

Hann hefur leikið prýðilega með Blackburn sem er í efri hluta Championship-deildarinnar. Arnór var áður á mála hjá CSKA frá Moskvu en var á láni hjá sænska liðinu Norrköping fyrri hluta ársins.

Arnór gekk til liðs við Norrköping frá CSKA Moskvu á síðasta ári en þar nýtti hann sér úrræði FIFA um að losa sig tímabundið undan samningi við rússneskt lið vegna stríðs Rússa í Úkraínu.

Þá hefur Albert Guðmundsson verið með betri mönnum Serie A, ítölsku úrvalsdeildarinnar, síðan hann gekk í raðir Genoa í byrjun árs. Albert er orðaður við mörg stórliðin, einna helst AC Milan, Napoli og Tottenham.

Líkt og Hákon, þá hækka Albert og Arnór verulega í launum á milli ára.

Albert hefur verið með betri leikmönnum ítölsku úrvalsdeildarinnar.
© epa (epa)

Í tímaritinu Áramótum er listi yfir 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan má sjá tíu launahæstu:

  1. Jóhann Berg Guðmundsson Burnley um 580 m.kr.
  2. Aron Einar Gunnarsson Al Arabi um 360 m.kr.
  3. Rúnar Alex Rúnarsson Arsenal (Cardiff í láni) um 300 m.kr.
  4. Hákon Arnar Haraldsson Lille um 250 m.kr.
  5. Arnór Sigurðsson Blackburn um 210 m.kr.
  6. Albert Guðmundsson Genoa um 200 m.kr.
  7. Guðlaugur Victor Pálsson KAS Eupen um 190 m.kr.
  8. Alfreð Finnbogason KAS Eupen um 180 m.kr.
  9. Hörður Magnússon Panathinaikos um 150 m.kr.
  10. Ísak Bergmann Jóhannesson FCK (Dusseldorf í láni) um 130 m.kr.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Hægt er að lesa umfjöllunina í heild hér.