Fyrir 123 árum veltu bræðurnir André og Édouard Michelin, stofnendur hjólbarðafyrirtækisins Michelin, því fyrir sér hvernig hægt væri að auka eftirspurn eftir hjólbörðum.

Hugmynd bræðranna var í raun sára einföld, en þeir létu prenta út 35.000 eintök af handbók sem innihélt fróðleik um bíla, verkstæði, hótel, bensínstöðvar og veitingahús. Með handbókinni, vildu þeir hvetja fólk til þess að ferðast um þjóðvegina.

Fyrsti Michelin leiðarvísinn.
Fyrsti Michelin leiðarvísinn.

Fljótlega fóru Michelin-bræður að gefa út handbækur í fleiri löndum, en heimsstyrjöldin fyrri raskaði útgáfu nýrra handbóka í þó nokkur ár. Árið 1920 taldi André Michelin svo tímabært að rukka fyrir handbókina, eftir að hafa séð hana klemmda undir vinnubekk á frönsku hjólbarðaverkstæði. Árið 1920 var því gefin út ný útgáfa af handbókinni, sem kostaði, var full af nýjum fróðleik og var laus við allar auglýsingar.

Úr einni í þrjár stjörnur

Með tímanum jukust vinsældir handbókarinnar, en fólk virtist almennt hafa mestan áhuga á umsögnum um veitingahús. Bræðurnir tóku sig því til og réðu gagnrýnendur, sem áttu að gera úttektir á veitingahúsum fyrir handbókina. Mikið var lagt upp úr því að nöfnum gagnrýnendanna yrði haldið leyndum, en svoleiðis er það enn í dag.

Árið 1926 gátu staðir einungis hlotið eina stjörnu, árið 1931 voru þær þó orðnar þrjár, en árið 1936 var bætt við viðmiðum, sem áttu að lýsa veitingahúsunum betur. Viðmiðin hafa ekkert breyst frá árinu 1936.

Ein stjarna stendur fyrir mjög gott veitingahús í tilteknum flokki. Tvær stjörnur standa fyrir frábæra eldamennsku, virði smá krókaleiðar. Þrjár stjörnur eiga að merkja einstök veitingahús, sem eru svo góð að fólk eigi helst að leggja á sig ferðalag til þess að borða þar.

Tokyo í sérflokki

Árlega er birtur listi yfir þær borgir sem státa af flestum veitingastöðum með Michelin-stjörnur. Tokyo, höfuðborg Japan, ber höfuð og herðar yfir aðrar borgir, en í fyrra voru 203 Michelin-veitingastaðir í henni. París og Kyoto voru með 108 veitingastaði hvor, Osaka var með 96 og Hong Kong með 71. Stórborgirnar New York og London voru með 65 Michelin-veitingastaði.

Fjallað var um málið í blaðinu Eftir vinnu, sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.