Atli Jasonarson, íslenskufræðingur er einn þeirra sem ætlar að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun en hann hleypur fyrir Hugrúnu - geðfræðslufélag. Hugrún er félag sem var stofnað af nemendum á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Fólk á vegum félagsins ferðast milli framhaldsskóla landsins með það að markmiði að fræða ungmenni um geðsjúkdóma og geðheilbrigði.

Í einlægri færslu sinni á facebook segist Atli lengi vel haldið að það væri eðlilegt að vera þunglyndur.

„Nema hvað, ég vissi ekkert hvað þunglyndi var. Ég hélt að þunglyndi væri einfaldlega sjálfskaparvíti þeirra sem kynnu ekki á lífið og í mínum huga voru það einungis aumingjar sem urðu þunglyndir. En ég gæti ekki orðið þunglyndur.  Ekki flotti ég.

Þannig að þrátt fyrir öll þunglyndiseinkennin - þrátt fyrir stanslausar sjálfsvígshugsanir, ævarandi samviskubit og þróttleysi til að lifa lífinu - áttaði ég mig ekki á því að ég gæti verið þunglyndur. Mig óraði ekki fyrir því.

Ég var að verða tuttugu og tveggja ára þegar ég loks leitaði mér hjálpar, sem ég hefði átt að gera mörgum árum fyrr og hefði sennilega gert ef ég hefði þekkt sjúkdóminn þunglyndi, sem spyr hvorki um aldur né fyrri störf, heldur getur herjað á hvern sem er. Líka ungt fólk sem heldur að það sé ódrepandi.

Þess vegna hef ég ákveðið að hlaupa 10 kílómetra fyrir Hugrúnu ( Hugrún - geðfræðslufélag ) í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.

Litli Atli hefði svo sannarlega haft gott af smá fræðslu um geðheilbrigði sitt og því væri ósköp fallegt ef þið, elskulegu vinir og vandamenn, mynduð heita á mig fyrir þetta hlaup og þar með hjálpa ungmennum, sem eru á sama stað og ég var einu sinni."

Sjá hlaupastyrk Atla hér: https://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=53522