„Hugmyndin kemur frá Tékklandi en mikið er um bjórböð þar. Agnes tengdamamma og eigandi Kalda fór til Tékklands árið 2008 og varð heilluð af hugmyndinni. Þetta er búinn að vera langþráður draumur og veturinn 2014 ákváðum við að slá til og koma þessari hugmynd af stað,“segir Ragnheiður Ýr Guðjónsdóttir, rekstrarstjóri og einn af eigendum Bjórbaðanna sem opnuðu þann 1.júní á Árskógssandi.

Ragnheiður segir þjónustuna ganga út á það að baða sig í tuttugu og fimm mínútur í keri sem er fyllt upp með vatni, bjór, geri og humlum. „Við setjum örlítið af baðsalti og olíu sem er búið til úr bjór. Eftir baðið er svo farið í tuttugu og fimm mínútna slökun.“ Herbergin eru 7 talsins og eru öll í einkarými, kerin eru gerð fyrir tvo en erum bæði með einstaklings og hjónaböð. „Ásamt því erum við með tvo útipotta og alveg einstakt útsýni.“ Einnig er boðið upp á mat en aðal áherslan er á góðan grillmat. Við ákváðum að byrja létt og ætlum okkur að stækka við seðilinn þegar líður á haustið.“

Ragnheiður segir Bjórböðin hafa farið ótrúlega vel af stað. „Við bjuggumst aldrei við svona góðu sumri, aðsóknin hefur farið fram úr okkar væntingum.“

Jákvæð áhrif á heilsuna

Að sögn Ragnheiðar er bjór gerið notað á hinn ýmsan hátt þegar kemur að böðunum. „Það sem algengast er, er töfluform þar sem eiginleikar gersins nýtast mjög í baðið. Það að baða sig bæði í ungum bjór og lifandi bjórgeri, án þess að sturta það af sér fyrr en einhverjum klukkustundum síðar, hefur góð og endurnærandi áhrif á líkamann, húð og hár, en hvoru tveggja inniheldur gífurlegt magn af b vítamíni. Þessi meðferð er bæði mjög hreinsandi fyrir húðina og hefur einnig mjög jákvæð áhrif á heilsuna. Einnig eru humlarnir sem við notum í böðin ríkir af andoxunarefnum.“

Íslendingar forvitnir

Þar sem aðsóknin hefur farið fram úr væntingum er næsta skref hjá Bjórböðunum er að opna gistingu á svæðinu. Ragnheiður segir marga Íslendinga hafa kíkt við í bland við túristana. „Við erum að fá mikið af Íslendingum til okkar og allir eru þeir mjög forvitnir um okkur. Við höfum fengið mikið af erlendum ferðamönnum núna í júlí og flesta beint af götunni.