Einn gamall og lúinn brandari gengur út á að í gamla daga voru fínustu símarnir þeir sem voru minnstir, en núna hefur þróunin snúist við og símaframleiðendur keppast nú, flestir að minnsta kosti, við að bjóða upp á sem stærsta síma. Þessi þróun er langt frá því búin að ná hámarki, ef marka má nýjustu Android símana sem kynntir voru á kaupstefnunni World Mobile Congress í vikunni.
Vefsíðan ars technica tók saman myndir og lista yfir nýjustu símana frá Samsung, LG, HTC, Sony, Asus og fleiri fyrirtækjum. Algengasta skjástærðin var fimm tommur, en til samanburðar má nefna að Galaxy S3 síminn frá Samsung er 4,8 tommur. Vissulega var að finna þar undantekningar eins og LG Optimus F5, sem er aðeins með 4,3 tommu skjá og Samsung Galaxy Young sem er enn minni, eða 3,2 tommur.
Stærstu „símarnir“ eru aftur á móti spjaldtölvurnar Samsung Galaxy Note 8.0 og Asus FonePad, en þær er báðar hægt að nota sem farsíma ólíkt flestum spjaldtölvum. Skjástærð Samsung tölvunnar er átta tommur og Asus tölvunnar sjö tommur. Stærsti eiginlegi snjallsíminn var svo Ascent Mate síminn frá Huawei, en hann er 6,1 tomma að stærð. Sjá má myndir af öllum þessum græjum hjá ars technica .