Félagið Starir gerði nýlega fimm ára samning við Veiðifélag Blöndu og Svartár um leigu á ánum. Lax-á, sem oft er kennt við Árna Baldursson, hafði verið með árnar á leigu undanfarin ár og var eitt ár eftir af samningnum. Í honum var uppsagnarákvæði sem Lax-á nýtti sér í lok sumars. Óhætt er að segja að það hafi komið nokkuð á óvart. Í kjölfarið hóf Veiðifélagið viðræður við nokkra aðila og varð niðurstaðan sú, eins og áður sagði, að ganga til samninga við Starir, sem er í eigu Ingólfs Ásgeirssonar, Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar.

„Við lögðum fram ákveðnar hugmyndir um það hvernig við viljum byggja ána upp,“ segir Ingólfur í samtali við Viðskiptablaðið. „Við erum að nálgast þetta með allt öðrum hætti en gert hefur verið fram að þessu.“

Stífur kvóti og fækkun stanga

Fram að þessu hefur Blöndu verið skipt í fjögur svæði og samtals veitt á 14 stangir. Veitt hefur verið á fjórar stangir á svæði I , fjórar á svæði II , þrjár á svæði III og þrjár á svæði IV . Auk fluguveiði, hefur undanfarin ár verið heimilt að veiða á maðk á tveimur veiðistöðum á svæði I í Blöndu. Á svæðum II og III hefur mátt veiða á spún og maðk en á svæði IV hefur einungis mátt veiða á flugu.

„Í Blöndu I , neðsta svæði árinnar, hefur verið 12 laxa kvóti á stöng á dag og veiðimenn hafa mátt taka stórlax jafnt sem smálax. Þarna hefur verið veitt á fjórar stangir og því mátti í raun taka 48 laxa þarna á dag. Þessu ætlum við að breyta. Frá og með næsta sumri verður eingöngu heimilt að veiða á flugu í Blöndu og á neðsta svæðinu verður tveggja laxa kvóti á dag. Þá munu veiðimenn þurfa að sleppa öllum stórlaxi, eða laxi sem er 69 sentímetrar eða stærri.

Einnig ætlum við að fækka stöngum. Fyrstu tvær þrjár vikurnar verður veitt á fjórar stangir í Blöndu I en þegar svæði II og III opna þá verður einungis veitt á eina stöng á hvoru svæði til að byrja með og síðan verður veitt á tvær á hvoru svæði. Stóran hluta af sumrinu verða svæði eitt, tvö og þrjú veidd saman. Á svæði IV verður veitt á þrjár stangir. Þetta þýðir að mest verður veitt á 11 stangir í Blöndu í staðinn fyrir 14. Það er því um kúvendingu að ræða á veiðifyrirkomulaginu í Blöndu. Einnig ætlum að við gæta hófs í verðlagningu veiðileyfa.

Blanda IV , sem er magnþrungið svæði og áin blátær, verður seld sér. Á meðan mest er notast við tvíhendur á neðri þremur svæðunum þá er einhendan málið á svæði IV . Þessu svæði fylgir veiðihús, þar sem menn sjá um sig sjálfir en í einhverjum tilfellum munu menn geta gist í Hólahvarfi, veiðihúsinu sem fylgir neðri svæðunum. Í Hólahvarfi er full þjónusta.“

Spennandi að sjá hvað gerist

Ingólfur segir að undangengin ár hafi mikið verið tekið af laxi á svæði I enda tólf laxa kvóti á stöng á dag.

„Með því að setja tveggja laxa kvóta á dag vonumst við til að laxinn muni dreifa sér með eðlilegum hætti upp ána og í Svartá. Það verður mjög spennandi að sjá hvað gerist því þetta hefur aldrei verið gert með þessum hætti. Ég myndi segja að þetta væri eitt stærsta laxverndarverkefni sem ráðist hefur verið í í seinni tíð.“

Eric Koberling , ein helsta unga stjarnan í laxveiðinni á Íslandi í dag, mun leiða verkefnið í Blöndu. Hann verður bæði staðarhaldari og yfirleiðsögumaður. Erik er sonur þýska myndlistarmannsins Bernd Koberling . Bernd er mjög þekktur í íslenska veiðiheiminum og talinn einn sá fyrsti ef ekki sá fyrsti sem kynnti gárubragðið fyrir íslenskum veiðimönnum. Erik hefur undanfarin sex ár verið leiðsögumaður fyrir Starir í Kjarrá .

Svartá hefur liðið fyrir dráp í Blöndu

Svartá í Svartárdal rennur í Blöndu í Langadal.

„Þar hefur verið veitt á fjórar stangir en við ætlum að fækka þeim í þrjár. Í einhverjum tilvikum munum við bjóða veiðimönnum að taka Blöndu I , II og III og Svartá. Þá verður veitt á tíu stangir og Svartá verður inni í skiptingunni. Við ætlum að vera mjög sveigjanlegir og gefa veiðimönnum færi á að stilla þessu upp með ýmsum hætti. Líkt og verið hefur þá mun einungis vera heimilt að veiða á flugu í Svartá en við ætlum að minnka kvótann úr tveimur löxum á stöng á dag í einn lax á stöng á dag. Líkt í Blöndu verður veiðimönnum skylt að sleppa stórlaxi. Svartá hefur að mínu viti liðið mjög fyrir óhóflegt dráp á laxi á svæði I í Blöndu. Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að byggja Svartá upp á nýjan leik og breytt veiðifyrirkomulag er stór hluti af því — stífari kvótar og fækkun stanga.“

Ingólfur segir að veiðihúsin verði endurnýjuð. „Hólahvarf verður alveg tekið í gegn og ráðist í gagngerar endurbætur. Sömu sögu er að segja af veiðihúsinu við Svartá.“

Spurður hvort hann óttist að fastakúnnar síðustu ára muni ekki koma vegna nýrra reglna svarar Ingólfur: „Þetta er auðvitað 180 gráðu beygja og því munu vafalaust einhverjir hverfa frá en við teljum þessar breytingar nauðsynlegar. Annars værum við ekki að þessu. Mikil niðursveifla hefur verið í laxveiðinni í Noregi, Skotlandi og Englandi og finnum við fyrir aukinni eftirspurn frá veiðimönnum sem hafa stundað veiði í þessum löndum. Þetta eru oftar en ekki veiðimenn sem vilja veiða í stórum ám, miklu vatnsfalli, og því er Blanda mjög ákjósanlegur kostur fyrir þá.“

Á gríðarlega mikið inni

Smálaxinn á næsta ári verður undan hrygningunni árið 2015, sem var eitt besta veiðiár sögunnar hérlendis.

„Árið 2015 veiddust til að mynda ríflega 4.800 laxar í Blöndu. Seiðin sem komu úr þessari hrygningu héldu til sjávar síðasta vor en þá voru aðstæður til útgöngu seiða með besta móti. Í þessu ljósi þá vonumst við til að Blanda og Svartá nái mjög góðu starti í því nýja umhverfi sem við erum að boða og tekið verður upp strax næsta sumar. Laxastofninn í Blöndu er sterkur en hann hefur mátt þola ansi mikið upp á síðkastið. Þegar veiðin hefur verið sem mest þá hafa ekki verið drepnir nokkur hundruð laxar heldur nokkur þúsund. Það er auðvitað ómögulegt að segja en mín tilfinning er sú að Blanda eigi gríðarlega mikið inni. Það er ekki spurning að veiðin mun aukast, eina spurningin er hvað það tekur langan tíma fyrir ána að ná sér á strik.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .

Félagið Starir gerði nýlega fimm ára samning við Veiðifélag Blöndu og Svartár um leigu á ánum. Lax-á, sem oft er kennt við Árna Baldursson, hafði verið með árnar á leigu undanfarin ár og var eitt ár eftir af samningnum. Í honum var uppsagnarákvæði sem Lax-á nýtti sér í lok sumars. Óhætt er að segja að það hafi komið nokkuð á óvart. Í kjölfarið hóf Veiðifélagið viðræður við nokkra aðila og varð niðurstaðan sú, eins og áður sagði, að ganga til samninga við Starir, sem er í eigu Ingólfs Ásgeirssonar, Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar.

„Við lögðum fram ákveðnar hugmyndir um það hvernig við viljum byggja ána upp,“ segir Ingólfur í samtali við Viðskiptablaðið. „Við erum að nálgast þetta með allt öðrum hætti en gert hefur verið fram að þessu.“

Stífur kvóti og fækkun stanga

Fram að þessu hefur Blöndu verið skipt í fjögur svæði og samtals veitt á 14 stangir. Veitt hefur verið á fjórar stangir á svæði I , fjórar á svæði II , þrjár á svæði III og þrjár á svæði IV . Auk fluguveiði, hefur undanfarin ár verið heimilt að veiða á maðk á tveimur veiðistöðum á svæði I í Blöndu. Á svæðum II og III hefur mátt veiða á spún og maðk en á svæði IV hefur einungis mátt veiða á flugu.

„Í Blöndu I , neðsta svæði árinnar, hefur verið 12 laxa kvóti á stöng á dag og veiðimenn hafa mátt taka stórlax jafnt sem smálax. Þarna hefur verið veitt á fjórar stangir og því mátti í raun taka 48 laxa þarna á dag. Þessu ætlum við að breyta. Frá og með næsta sumri verður eingöngu heimilt að veiða á flugu í Blöndu og á neðsta svæðinu verður tveggja laxa kvóti á dag. Þá munu veiðimenn þurfa að sleppa öllum stórlaxi, eða laxi sem er 69 sentímetrar eða stærri.

Einnig ætlum við að fækka stöngum. Fyrstu tvær þrjár vikurnar verður veitt á fjórar stangir í Blöndu I en þegar svæði II og III opna þá verður einungis veitt á eina stöng á hvoru svæði til að byrja með og síðan verður veitt á tvær á hvoru svæði. Stóran hluta af sumrinu verða svæði eitt, tvö og þrjú veidd saman. Á svæði IV verður veitt á þrjár stangir. Þetta þýðir að mest verður veitt á 11 stangir í Blöndu í staðinn fyrir 14. Það er því um kúvendingu að ræða á veiðifyrirkomulaginu í Blöndu. Einnig ætlum að við gæta hófs í verðlagningu veiðileyfa.

Blanda IV , sem er magnþrungið svæði og áin blátær, verður seld sér. Á meðan mest er notast við tvíhendur á neðri þremur svæðunum þá er einhendan málið á svæði IV . Þessu svæði fylgir veiðihús, þar sem menn sjá um sig sjálfir en í einhverjum tilfellum munu menn geta gist í Hólahvarfi, veiðihúsinu sem fylgir neðri svæðunum. Í Hólahvarfi er full þjónusta.“

Spennandi að sjá hvað gerist

Ingólfur segir að undangengin ár hafi mikið verið tekið af laxi á svæði I enda tólf laxa kvóti á stöng á dag.

„Með því að setja tveggja laxa kvóta á dag vonumst við til að laxinn muni dreifa sér með eðlilegum hætti upp ána og í Svartá. Það verður mjög spennandi að sjá hvað gerist því þetta hefur aldrei verið gert með þessum hætti. Ég myndi segja að þetta væri eitt stærsta laxverndarverkefni sem ráðist hefur verið í í seinni tíð.“

Eric Koberling , ein helsta unga stjarnan í laxveiðinni á Íslandi í dag, mun leiða verkefnið í Blöndu. Hann verður bæði staðarhaldari og yfirleiðsögumaður. Erik er sonur þýska myndlistarmannsins Bernd Koberling . Bernd er mjög þekktur í íslenska veiðiheiminum og talinn einn sá fyrsti ef ekki sá fyrsti sem kynnti gárubragðið fyrir íslenskum veiðimönnum. Erik hefur undanfarin sex ár verið leiðsögumaður fyrir Starir í Kjarrá .

Svartá hefur liðið fyrir dráp í Blöndu

Svartá í Svartárdal rennur í Blöndu í Langadal.

„Þar hefur verið veitt á fjórar stangir en við ætlum að fækka þeim í þrjár. Í einhverjum tilvikum munum við bjóða veiðimönnum að taka Blöndu I , II og III og Svartá. Þá verður veitt á tíu stangir og Svartá verður inni í skiptingunni. Við ætlum að vera mjög sveigjanlegir og gefa veiðimönnum færi á að stilla þessu upp með ýmsum hætti. Líkt og verið hefur þá mun einungis vera heimilt að veiða á flugu í Svartá en við ætlum að minnka kvótann úr tveimur löxum á stöng á dag í einn lax á stöng á dag. Líkt í Blöndu verður veiðimönnum skylt að sleppa stórlaxi. Svartá hefur að mínu viti liðið mjög fyrir óhóflegt dráp á laxi á svæði I í Blöndu. Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að byggja Svartá upp á nýjan leik og breytt veiðifyrirkomulag er stór hluti af því — stífari kvótar og fækkun stanga.“

Ingólfur segir að veiðihúsin verði endurnýjuð. „Hólahvarf verður alveg tekið í gegn og ráðist í gagngerar endurbætur. Sömu sögu er að segja af veiðihúsinu við Svartá.“

Spurður hvort hann óttist að fastakúnnar síðustu ára muni ekki koma vegna nýrra reglna svarar Ingólfur: „Þetta er auðvitað 180 gráðu beygja og því munu vafalaust einhverjir hverfa frá en við teljum þessar breytingar nauðsynlegar. Annars værum við ekki að þessu. Mikil niðursveifla hefur verið í laxveiðinni í Noregi, Skotlandi og Englandi og finnum við fyrir aukinni eftirspurn frá veiðimönnum sem hafa stundað veiði í þessum löndum. Þetta eru oftar en ekki veiðimenn sem vilja veiða í stórum ám, miklu vatnsfalli, og því er Blanda mjög ákjósanlegur kostur fyrir þá.“

Á gríðarlega mikið inni

Smálaxinn á næsta ári verður undan hrygningunni árið 2015, sem var eitt besta veiðiár sögunnar hérlendis.

„Árið 2015 veiddust til að mynda ríflega 4.800 laxar í Blöndu. Seiðin sem komu úr þessari hrygningu héldu til sjávar síðasta vor en þá voru aðstæður til útgöngu seiða með besta móti. Í þessu ljósi þá vonumst við til að Blanda og Svartá nái mjög góðu starti í því nýja umhverfi sem við erum að boða og tekið verður upp strax næsta sumar. Laxastofninn í Blöndu er sterkur en hann hefur mátt þola ansi mikið upp á síðkastið. Þegar veiðin hefur verið sem mest þá hafa ekki verið drepnir nokkur hundruð laxar heldur nokkur þúsund. Það er auðvitað ómögulegt að segja en mín tilfinning er sú að Blanda eigi gríðarlega mikið inni. Það er ekki spurning að veiðin mun aukast, eina spurningin er hvað það tekur langan tíma fyrir ána að ná sér á strik.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .