Laxveiðiárnar í Þistilfirði hafa oft verið sveipaðar dulúð og þá kannski helst Sandá, sem hefur verið í leigu veiðifélagsins Þistla í 55 ár. Arthur Bogason, formaður Þistla, segir að samband veiðiréttarhafa og leigutaka sé einstakt.

„Við höfum sett okkur mjög strangar umgengnisreglur og förum eftir þeim í hvívetna. Fyrir vikið held ég að við getum verið mjög stoltir af því hvernig gengið er um ána. Í ánni er veitt á þrjár stangir en ef menn samþykkja að veiða í tíu tíma á dag í staðinn fyrir tólf þá er leyfilegt að veiða á fjórar stangir. Þriggja daga holl má samtals drepa sex laxa og fjögurra daga holl má samtals drepa átta laxa. Þessir laxar verða að vera nýgengnir og litlir. Það er bannað að drepa laxa sem eru 70 sentímetrar eða stærri. Síðan er auðvitað alltaf undantekning frá reglunni en hún er sú að ef veiðimaður landar það sem á ensku er kallað „ trophy fish “ þá má hann drepa hann svo lengi sem það er yfir tuttugu punda hægur. Rannsóknir hafa sýnt að þessir laxar eru oftar en ekki geldir og eru því oft til vandræða í ám. Síðasti stórlax sem var drepinn í Sandá var stoppaður upp.“

Alls eru þrettán félagar í Þistlum. Fyrirkomulagið er þannig að hver og einn félagi er með fimm manna hóp á bakvið sig eða eitt veiðiholl miðað við þrjár stangir og tvo veiðimenn á stöng. Síðan fær hver félagi úthlutað dögum í ánni. Spurður hvort Þistlar sé opið félag svarar Arthur: „Því er nú öðru nær. Ég byrjaði að veiða í Sandá árið 1988 og frá þeim tíma og til ársins 2007 sótti ég um á hverju ári. Þegar ég loks fékk inngöngu var ég gerður að formanni,“ segir Arthur og hlær.

Veiðibækur frá 1964

Arthur segir að Sandá sé að mörgu leyti lík Svalbarðsá.

„Ég hygg að Sandá sé aðeins vatnsmeiri en Svalbarðsá en minni en Hafralónsá og ekki jafn hröð og Hölkná. Áin geymir svolítið mikið af stórum löngum dömmum. Efst rennur hún um gljúfur og gil en síðan rennur hún mikið til um grasbakka. Alveg efst þurfa menn að fara niður með kaðli. Almennt má segja að Fossbrot sé efsti staðurinn því staðurinn þar fyrir ofan, Fosshylur, er stórvarasamur og einungis veiðimenn með greindarvísitölu á við mús fara þangað. Að því sögðu þá hef ég sjálfur reynt að veiða þennan stað en það er mjög langt síðan. Minn uppáhaldsstaður er Hornhylur, það er ekkert sérstaklega létt að veiða hann en rennslið er ofsalega skemmtilegt.“

Í veiðihúsinu við Sandá voru geymdar allar veiðibækur frá árinu 1964 og tók Arthur sig til og sló allar upplýsingarnar inn í excel — stærð, kyn, veiðistað og agn.

„Við erum því með mjög góða yfirsýn yfir veiðina í ánni. Til ársins 2007 veiddust að meðaltali um 210 laxar í ánni á ári. Það ár tókum við upp stífara fyrirkomulag um sleppingar og eftir það jókst meðalveiðin um 100 laxa á ári. Sandá geymir stóra laxa því á hverju ári veiðast fiskar sem mælast yfir 100 sentímetra langir.“

Á myndinni er Arthur Bogason með stórlax, sem hann landaði í Bjarnadalshyl í Sandá.

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Veiði. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .