Ásmundur Helgason er vanur veiðimaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur. Ásamt tvíburabróður sínum Gunnari hefur hann gert fjölda veiðiþátta, meðal annars Veiðikofann, sem sýndur var á RÚV á síðasta ári.
„Það er ekki laust við að maður hafi lent í því að vera við laxveiðiá í brakandi þurrki. Alltof lítið vatn sem er of heitt og alltof súrefnislítið. Stundum fyrripart sumars en oftar þegar komið hefur verið inn í ágúst, „segir Ásmundur. „Einu sinni hef ég gert þau mistök að gefast upp og fara í bæinn áður en veiðinni lauk. Gunni bróðir hringdi skellihlæjandi morguninn eftir. Hann gafst ekki upp heldur fór í að veiða sjóbirting neðst í ánni og lenti í bingói – í stærri fiskum en meðallaxinn í þeirri á. Síðan þá hef ég aldrei gefist upp.
Að vera í vatnslítilli á í byrjun sumars er líklega það erfiðasta sem maður lendir í, í veiðiskapnum. Það reynir á þolgæðin , á andlegu hliðina, á að tapa ekki gleðinni – að halda áfram að reyna. Og ef maður nær einum er sigurinn enn sætari.
Ég hef ekki algild ráð um hvað skal gera í svona ástandi. Get þó mælt með því að prófa ofar í hverjum veiðistað þar sem laxinn er líklega kominn upp í strauminn til að leita að súrefni. Lesa vatnið, ekki gera það sama og venjulega, að prófa eitthvað nýtt.
Í dag myndi ég mæla með litlu flugunum en eitt skiptið sem ég var í Norðurá virkaði þokkalega stór Snælda á eina fiskinn sem ég sá í ferðinni. Það er oft þannig að þegar lítil er veiðin verður gleðin í húsi þeim mun meiri. Því var það svo að ég var sá eini sem fór á fætur á fjórðu vakt. Var mættur niður að Laxfossi fyrir klukkan átta og starði í strauminn. Reyndi að lesa vatnið. Og þar sem ég er byrjaður að vaða út í til að fara yfir á Eyrina sýnist mér glitta í lax í Krossholunni. Nema hvað, vegna vatnsleysis rann öðruvísi ofan í holuna en venjulega. Árið áður hafði ég staðið ásamt félaga mínum fyrir ofan holuna og hitsað upp fjóra fiska á stórskemmtilegum hálftíma. Nú var straumurinn hins vegar þvert á ána í holunni og því ákvað ég að standa og kasta með allt öðrum hætti – og beita þýskri Snældu. Bingó! Eini laxinn minn í túrnum og sá eini af þremur í hollinu.
Lærdómurinn? Að á meðan laufin sofa vakna spaðarnir … og veiða.“
Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Veiði. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .