Mikið var um dýrðir í Hörpu á dögunum þegar sex íslensk fatahönnunarfyrirtæki í fremstu röð, JÖR, Eyland, Magnea, Scintilla, Sigga Maija og Another Creation, frumsýndu vetrarlínur sínar. Mikil gróska er í íslenskri fatahönnun, eins og myndirnar bera með sér. Myndirnar tók Birta Rán Björgvinsdóttir.
Haust- og vetrarlína JÖR ber yfirskriftina Þrettán og var einmitt sýnd á föstudeginum þrettánda. Skjannahvítur, svartur og gráir tónar eru í aðalhlutverki og gæta má áhrifa frá kvikmyndinni A Clockwork Orange, vísindaskáldsögum og gotastíl. Línan er fyrir bæði kynin.
Frumraun Eyland á RFF var innblásin af lagi Patti Smith Because the Night. Leður, rúskinn, mínípils, kaskeiti og rokk og ról einkenna línuna og eru svartir, bláir og gylltir tónar í forgrunni.
Fatamerkið Magnea, sem leggur áherslu á nýstárlegt prjón, sótti að þessu sinni innblástur sóttur í gallaefni og ýmsar aðferðir við vinnslu þess. Í línunni gefur m.a. að líta víðar og síðar peysur og kjóla, auk flíka úr gallaefni. Skærrauður og skærblár veita grárri pallettunni hressilegt mótvægi.
Scintilla hefur getið sér gott orð fyrir vandaða heimilisvöru þar sem textíll er í öndvegi. Fyrsta fatalína fyrirtækisins er í líflegum en fáguðum pasteltónum og ber norrænni nútímahönnun fagurt vitni.
Sigga Maija sýndi töffaralega línu sem samanstendur aðallega helst af jökkum, frökkum, kjólum og prjónaflíkum úr leðri, PVC, satíni og ull. Svartur ræður ríkjum en er þó af og til brotinn upp með mynstri í gulrauðum tónum.
Lúxus, rokk, rómantík og geómetrísk Art Deco grafík einkenna fyrstu línu Another Creation, sem sótti innblástur í sterkar kvenfyrirmyndir. Línan er úr leðri, loðfeldi, ull og satínsilki en í litapallettunni eru gylltur, kamelbrúnn, svartur, hvítur og vínrauður. Það sem gerir línuna einstaka er að hverri flík má breyta á ýmsa vegu, t.a.m. með því að skipta út kraga eða ermum.
© vb.is (vb.is)
© vb.is (vb.is)
© vb.is (vb.is)
© vb.is (vb.is)
© vb.is (vb.is)
© vb.is (vb.is)
© vb.is (vb.is)
© vb.is (vb.is)