Vínframleiðendur í Argentínu höfðu vonast eftir góðri uppskeru á þessu ári eftir sérstaklega slæma uppskeru á síðasta ári. Veðurguðirnir náðu þó ekki að verða við beiðni þeirra og hafa árstíðirnar verið mjög ófyrirsjáanlegar undanfarið.

Heitir og þurrir vindar, eða Zonda-vindarnir, hafa gengið niður frá Andesfjöllum síðan í september og var kalt og þurrt fram í miðjan janúar.

Eftir það skall á mikil hitabylgja og fór hitastigið sums staðar upp í 40 gráður. Hitinn flýtti fyrir þrúguvextinum og var hitinn sums staðar svo mikill að þrúgurnar hreinlega dóu.

„Það var ekki endilega styrkleiki Zonda-vindana sem gerði mestan skaðann, heldur þrautseigja þeirra. Við fengum þriggja daga vindhviðu rétt á meðan vínakrarnir voru mjög viðkvæmir. Vindurinn minnkaði þá en þá voru plönturnar allar útþurrkaðar,“ segir Pablo Richardi, vínframleiðandi hjá Flechas de los Andes.

Argentína er ekki einsdæmi en vísindamenn hafa varað við því að vínhéröðin á Spáni, Ítalíu, Grikklandi, Frakklandi og í Kaliforníu gætu horfið ef hitastig jarðar hækkar um tvær gráður.

Á síðustu 12 mánuðum fram til janúar 2024 var meðalhiti á jörðinni 1,52°C og leiddi það til mikilla þurrka og banvænna storma. Hitastigsbreytingin hafði einnig mikil áhrif á vínframleiðslu en uppskeran á heimsvísu hafði ekki verið jafn lítil frá því 1961.