Ný stjórn hefur verið kjörin fyrir næsta starfsár FKA Framtíðar en aðalfundur fór fram í Húsi atvinnulífsins þann 30. maí síðastliðinn. FKA Framtíð er deild innan Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) og telur yfir 560 félagskonur.

Í tilkynningu segir að FKA Framtíð sé fyrir konur sem vilji vaxa og ná lengra í íslensku atvinnulífi. Mikil áhersla sé þá sett á virka uppbyggingu tengslanets og hagnýta fræðslu sem geti nýst vel í starfi sem og einkalífi.

„FKA Framtíð vill vera stökkpallur fyrir ný tækifæri, framþróun og stuðningsnet fyrir konur svo þær geti fullnýtt hæfileika sína og möguleika.“

Félagið stendur árlega fyrir Mentor verkefni sem hefur reynst eitt það mikilvægasta og eftirsóttasta á starfsárinu. Verkefnið snýr að því að koma upp mentor-samstarfi milli kvenna, þar sem reyndur leiðtogi er paraður við konu með minni reynslu eða mentee.

Síðastliðinn vetur var met aðsókn og tóku hátt í 160 konur þátt og segir í tilkynningu að innan FKA Framtíðar hafa myndast langlíf viðskipta- og vinasambönd.
Fjöldi viðburða voru á vegum FKA framtíðar á síðasta ári eins og fyrirtækjaheimsóknir, hraðstefnumót, ráðstefna og trúnó við varðeldinn.

Kosið er til tveggja ára í senn en nýkjörna stjórn FKA Framtíðar skipa:
● Amy Dyer, stofnandi og eigandi Tropic
● Inga Lára Jónsdóttir, útibússtjóri hjá Securitas
● Magdalena Torfadóttir, viðskiptablaðamaður hjá Morgunblaðinu og hlaðvarpsstjórnandi Fjármálakastsins
● Margrét Hannesdóttir, viðskiptagreining og þróun markaða hjá Carbon Recycling International
● Sandra Sif Stefánsdóttir, sérfræðingur á fyrirtækja- og fjárfestingabankasviði Arion Banka
● Sjöfn Arna Karlsdóttir, verkefnastjóri reikningshalds hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
● Veronika Guls, Markaðs- og almannatengsla sérfræðingur

Í stjórninni voru Árdís Ethel Hrafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandair, Ester Sif Harðardóttir, forstöðumaður fjármála hjá InfoCapital ehf., Karlotta Halldórsdóttir, sérfræðingur í útlánum fyrirtækja í Arion banka, Maríanna Finnbogadóttir, mannauðsráðgjafi í Arion Banka, Sigríður Inga Svarfdal Þorkelsdóttir, sölu- og markaðsstjóri hjá YAY ehf., Sólveig Ragnheiður Gunnarsdóttir, óháður fyrirtækja- og fjármálaráðgjafi hjá Sólveig ehf. og fjármálastjóri GeoSilica.