Stóru netverslunardagarnir og jólin nálgast óðum með tilheyrandi auknum umsvifum í verslunarbransanum. Í því tilefni stóð Pósturinn fyrir markaðsviðburði í Hörpu í gær. Þar komu saman fulltrúar fyrirtækja í sölu- og markaðsmálum til að undirbúa sig fyrir vertíðina en alls mættu rúmlega 200 gestir.

Hádegisviðburðurinn bar heitið Tækifæri og tól í beittari markaðssetningu fyrir háönn og fyrirlesararnir voru ekki af verri endanum. Þau Gerður Arinbjarnardóttir í Blush, Kári Sævarsson frá Tvist og Brynja Dan hjá 1111.is fræddu viðstadda um allt það helsta sem þarf að hafa í huga í aðdraganda háannarinnar.

Markaðsmanneskja ársins, Gerður í Blush, sló upphafstóninn með því að hvetja fólk til dáða með öðruvísi markaðssetningu. Hún fjallaði um hvaða dagar henti mismunandi fyrirtækjum þegar kemur að stóru netverslunardögunum, nýstárlegar hugmyndir í auglýsingum sem koma ekki við pyngjuna og ýmsar gildrur sem ber að varast á annasömum tímum svo eitthvað sé nefnt. Blush hefur verið í samstarfi við Póstinn frá upphafi en viðskiptavinir þeirra eru sérlega duglegir við að nýta sér póstboxin vinsælu.

Gerður í Blush
© Hafsteinn Snær Þorsteinsson (Hafsteinn Snær Þorsteinsson)

Kári Sævarsson, listrænn stjórnandi og stofnandi auglýsingastofunnar Tvist, tók næstur til máls. Hann lagði ríka áherslu á gildi vörumerkisins og hvernig það blasir við neytandanum hverju sinni. Hann nefndi að þó farnar væru ólíkar leiðir til að halda vörumerki á lofti væri mikilvægast að skapa traust og muna eftir heildarmyndinni.

Kári tók sem dæmi að það hefði lítið upp á sig að birta sniðugan texta með óskýrri mynd eða öfugt. „Orð eru ódýr,“ sagði hann og átti við að til þess að ná fram merkingu og áhrifum þurfi að leggja sig fram og forðast þannig „daufleika orðanna“. Pósturinn mun njóta krafta Kára og félaga á næstunni svo eftir verður tekið.

Kári Sævarsson, listrænn stjórnandi og stofnandi auglýsingastofunnar Tvist.
© Hafsteinn Snær Þorsteinsson (Hafsteinn Snær Þorsteinsson)

Eigandi 1111.is, Brynja Dan átti lokaorðin. Hún var ónísk á ráðin í verslunartíðinni fram undan. Hún hvatti fyrirtækjaeigendur til að huga vel að vefsíðunum og því aukna álagi sem fylgi stóru netverslunardögunum. Pósturinn mun ekki láta sitt eftir liggja þessa daga.

Kári Sævarsson, Gerður Arinbjarnardóttir, Brynja Dan Gunnarsdóttir og Ósk Heiða Sveinsdóttir.
© Hafsteinn Snær Þorsteinsson (Hafsteinn Snær Þorsteinsson)
Rúmlega 200 gestir mættu á hádegisviðburð Póstsins í Hörpu í gær.
© Hafsteinn Snær Þorsteinsson (Hafsteinn Snær Þorsteinsson)