Magnaður 911 Sport Classic

Porsche 911 Sport Classic var frumsýndur í fyrsta sinn á Íslandi á dögunum hjá Bílabúð Benna. Um er að ræða 550 hestafla sportbíl sem hannaður var til að vekja minningar um 911-bíla fortíðar, og þá sérstaklega sjöunda áratugarins. Sportbíllinn er hluti af „Icons of Cool“-seríu bíla frá Porsche sem eru sérútgáfur framleiddar í takmörkuðu upplagi.

Nýr Honda e:Ny1 á leiðinni

Forsala er hafin á nýjum e:Ny1, en um er að ræða fyrsta alrafmagnaða jepplinginn frá Honda. Hinn nýi e:Ny1 er annar 100% rafknúni bíllinn sem Honda býður upp á en sá fyrsti í flokki jepplinga. Bíllinn er með allt að 412 km drægi. Bíllinn býður upp á framúrskarandi útsýni með hárri sætisstöðu og drægi á rafmagni sem hentar íslenskum aðstæðum fullkomlega. Hægt er að forpanta e:Ny1 í vefsýningarsal Öskju en bíllinn er væntanlegur til landsins í haust.

MG4 EV Standard Range mættur til leiks

Ný útgáfa af rafbílnum MG4, sem ber gerðarheitið MG4 Standard Range, er komin í sölu hjá BL. Bíllinn er með 51 kWh rafhlöðu og 350 km drægi.  MG4 var upphaflega frumsýndur á Evrópumarkaði um mitt síðasta ár, þar á meðal hér á landi í lúxusútgáfu. Bíllinn hefur hlotið góðar móttökur og fjölda viðurkenninga víða í Evrópu fyrir þægilega aksturseiginleika og hagstætt verð, einkum í ljósi ríkulegs búnaðar.

Askja hefur sölu á smart

Bílaumboðið Askja hefur hafið sölu á smart, en um er að ræða línu af rafbílum frá þessum þekkta framleiðanda. Fyrsti bíllinn er nýr smart #1 sem var frumsýndur í nýju og glæsilegu sýningarrými á Krókhálsi 11 dagana 15.-16. júní og gafst þeim sem fóru í reynsluakstur tækifæri á að vinna afnot af bílnum í allt sumar. Nýr smart #1 var fyrst kynntur í Berlín á síðasta ári og vakti þá mikla athygli.

Nánar er fjallað um nýja bíla á markaðnum í fylgiritinu Bílar, sem kom út 7. júlí síðastliðinn.