Snúran flutti nýlega verslun sína í stærra og glæsilegra húsnæði í Ármúla. Með stækkuninni breikkaði einnig vörulína verslunarinnar til muna en nýjasta merki Snúrunnar er hið þekkta danska merki Bolia.

Rakel Hlín Bergsdóttir, eigandi Snúrunnar, er önnum kafin þessa dagana í nýju versluninni sinni en hún segir jólaverslunina hafa farið af stað í fyrra fallinu þetta árið.„Hún fer mjög vel af stað hjá okkur og ekki hægt að segja annað en að fólk sé mjög tímanlega í jólainnkaupunum að þessu sinni.“ Spurð hvort hún upplifi breytta kauphegðun hjá fólki tengda jólunum segir hún svo vera: „Okkur finnst jólainnkaupin alltaf byrja fyrr og fyrr hérna hjá okkur og við finnum að fólk nennir ekki alltaf að vera á síðustu stundu með hlutina. Það er líka meðvitaðra um að vera fyrr á ferðinni upp á að hafa tækifæri á að kaupa það sem það langar til að gefa, en ekki eiga hættu á að það sé búið.“

Ekkert rautt skraut í ár

Hér áður fyrr átti fólk oft sama jólaskrautið svo árum skipti, er fólk farið að leyfa sér að elta tískustrauma og breyta oftar? „Það gerir það hiklaust þegar kemur að ódýrari vörunum og leyfir sér kaupa það sem er í tísku hvert ár. Við leggjum samt alltaf áherslu á það að vera með vandaðar og klassískar jólavörur sem fólk safnar sér.“ Þegar kemur að vinsælustu jólavörunum í ár segir Rakel Finnsdottir stjakana tróna á toppnum þar. „Finnsdottir stjakarnir sem er dönsk hönnun hafa vakið mikla lukku undanfarin ár og hafa vinsældir þeirra aukist með hverjum jólunum. Í ár er mikið af dökku jólaskrauti að koma sem og gyllt. Einnig er ljósbleiki liturinn vinsæli áberandi í jólaskrautin og margir tónar af grænu. Við erum ekki með neitt hefðbundið rautt jólaskraut þetta árið, sem er kannski óvanalegt.“

Tók þátt í hönnun jólastjakans

Að þessu sinni tók Snúran þátt í hönnun stjakans og er útkoman fallegur bambi við jólatré. „Við vorum svo ótrúlega heppnar að fá að koma á vinnustofuna hjá henni Þóru, hönnuðinum á bak við Finnsdottir, í janúar. Eftir mikla vinnu og pælingar fram og til baka þá varð til nýr jólakertastjaki sem fékk nafnið Bambi. Það var Guðný Stefánsdóttir sem kom með mér og hönnuðum við hann ásamt henni Þóru, hönnuði stjakanna. Það er ótrúlega gaman að taka þátt í svona ferli og ennþá skemmtilegra þegar við fengum hann svo í hendurnar núna í október.“ Rakel segir innblásturinn að stjakanum eiga rætur sínar að rekja beint til vinnustofu Þóru. „Það var gríðarlegur innblástur að koma á vinnustofuna til hennar og þaðan komu hugmyndirnar. Hún er búin að búa til alls konar mót af öllu mögulegu og notar til þess ótrúlegustu hluti.“ Stjakarnir eru orðnir nokkrir talsins og því orðin safnvara hjá mörgum hverjum. „Við erum spurðar út í stjaka allt árið um kring og það skapast mikil spenna í ágúst þegar tilkynntir eru hvaða nýju stjakar bætast við.“

Þriðja vara Snúrunnar

væntanleg Þetta er þó ekki eina samstarfið sem Rakel hefur farið í með góðum árangri með þekktum hönnuði eða hönnunarfyrirtæki. „Við fórum í frábært samstarf við Reflections sem einnig varð til í janúar. Okkur langaði svo til þess að mæta þörfum viðskiptavina okkar með öllum þeim athugasemdum og ábendingum sem okkur hafði borist frá þeim og búa til fallegan stjaka sem myndi passa vel með þeim sem fyrir eru í línunni. Úr varð stjakinn Augusta sem við erum gríðarlega stoltar af.“ Fljótlega bætist svo við þriðja varan sem sérstaklega er hönnuð fyrir Snúruna en um er að ræða fallegan spegil sem Rakel segir mikið tilhlökkunarefni.

Sofnuð fyrir eftirréttinn

Rakel viðurkennir að sem barn hafi hún verið einstaklega mikið jólabarn. „Ég var sem dæmi svo spennt fyrir því að fá að opna pakkana og fjölskyldan mín fékk varla tíma til þess að kyngja síð- asta bitanum af rjúpunni þegar ég var rokin til að rífa þá upp með látum. Eftir að maður eignast svo sjálfur börn þá verður þessi tími allt öðruvísi. Lífið snýst ekki lengur um að bíða eftir sínum pakka heldur verður þetta hátíð- in þeirra og ánægjan snýst um að horfa á þau opna sína pakka.“ Rakel eignaðist svo sjálf bókstaflega lítið jólabarn en hún fæddi rétt eftir að kirkjuklukkurnar hringdu inn jólin. „Eftir það hefur dagurinn breyst mikið. Það er ekki lengur leti fram eftir degi heldur afmælisveisla í hádeginu og um leið og búið er að ganga frá eftir hana er hafist handa við að undirbúa kvöldið. Eftir að Snúran opnaði fyrir þremur árum hafa jólin líka breyst mikið hjá mér því það er ekki mikill tími til þess að hugsa um að skreyta og gera klárt heima fyrir. Ég hef leyft krökkunum algjörlega að eiga heiðurinn af öllu skrauti. Ég loka bara augunum og leyfi þeim að gera eins og þau vilja. Ef þau eru ánægð þá eru allir kátir. Ég hef oftar en ekki verið eins og VR auglýsingin og sofnað fyrir eftirréttinn,“segir Rakel að lokum.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)