Heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu stendur nú yfir í Ástralíu og á Nýja Sjálandi. Leikir í 8-liða úrslitum eru spilaðir í dag og á morgun, dagana 11. - 12. ágúst.

Kvennaknattspyrnan hefur vaxið mjög hratt á síðustu árum, en gert er ráð fyrir að nærri tvöfalt fleiri horfi á HM kvenna í ár samanborið við síðasta mót árið 2019, samkvæmt greiningu Euromonitor International. Sömu þróun má sjá á áhorfendatölum hjá stærstu kvennadeildunum.

Greinandinn Swiss Ramble, sem sérhæfir sig í fjármálum fótboltans, tók nýlega saman helstu stærðir í efstu deild kvenna í knattspyrnu á Englandi, eða Women Super League (WSL), sem stofnuð var árið 2010. Greiningin tekur mið af ársreikningum liðanna á þarsíðasta tímabili, 2021-2022, og má þar sjá mikinn vöxt deildarinnar á síðustu árum.

Heildartekjur þeirra tólf liða sem léku í deildinni á tímabilinu 2021/22 jukust um 64% milli tímabilanna 2020/2021 og 2021/22, fóru úr 18,7 milljónum punda í 30,7 milljónir punda, eða sem nemur 5,2 milljörðum króna. Þá hafa tekjurnar meira en fjórfaldast frá tímabilinu 2017/2018 þegar þær námu 8,5 milljónum punda. Tekjurnar eru lítillega vanmetnar þar sem Aston Villa og West Ham gáfu ekki út sérstakan ársreikning fyrir kvennaliðin sín.

Mikill munur er á tekjum ensku liðanna, og hefur bil myndast á milli fjögurra arðbærustu liðanna og hinna liðanna. Arsenal, Chelsea, Manchester United og Manchester City voru þannig með þrjá fjórðu af heildartekjum deildarinnar á tímabilinu 2021/22. Arsenal var með mestu tekjurnar, eða 6,9 milljónir punda. Þar á eftir kom Chelsea með 6,4 milljónir punda í tekjur.  Þá var Man Utd með 5,1 milljón punda í tekjur og Man City með 4,1 milljón punda.

Fjallað er nánar um vöxt kvennaknattspyrnunnar í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun, 11. ágúst.